Samdráttur í sölu sjávarafurða

215
Deila:

Hagstofan birti fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd fyrir janúar í gærmorgun. Þar má sjá að Hagstofan hefur ráðist í verulegar breytingar á framsetningu á töflu um vöruskipti, sem hefur að geyma mun ítarlegri sundurliðun en áður á fyrstu bráðabrigðatölunum. Þannig má sjá sundurliðun á útfluttum sjávarafurðum eftir helstu vinnsluflokkum, auk þess sem eldisafurðir eru birtar sér. Áður voru einungis birtar tölur fyrir yfirflokka, það er sjávarafurðir í heild og landbúnaðarafurðir í heild þar sem fiskeldi flokkast undir. Hagstofan á hrós skilið fyrir þessar breytingar, því þær eru til mikilla bóta. Nánar um þetta má sjá í frétt á vef Hagstofunnar. Farið er yfir gang mála á heimasíður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samdráttur í sjávarútvegi í upphafi árs
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 17 milljörðum króna í janúar. Það er um 6% samdráttur miðað við janúar í fyrra, í krónum talið. Samdrátturinn er ívið meiri á föstu gengi, eða rúm 15%, enda var gengi krónunnar um 10% veikara nú í janúar en í sama mánuði í fyrra.

Í ofangreindum samdrætti munar mest um þrjá afurðaflokka, það er fryst flök, heilan frystan fisk og fiskimjöl. Hefur útflutningsverðmæti þessara þriggja flokka jafnframt ekki verið minna á fyrsta mánuði ársins frá árinu 2011, að minnsta kosti. Útflutningsverðmæti frystra flaka var um 4,3 milljarðar króna nú í janúar og dróst saman um rúm 27% á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti á heilum frystum fiski dróst saman um þriðjung, og nam verðmæti hans rúmlega 1,2 milljörðum króna í mánuðinum. Verulegur samdráttur var í útflutningsverðmæti fiskimjöls á milli ára, eða sem nemur um 73%. Var útflutningsverðmæti fiskimjöls rétt rúmlega 260 milljónir króna í mánuðinum. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nam rúmlega 2,0 milljörðum króna í janúar, sem er um 10% samdráttur á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti rækju nam rúmlega 450 milljónum króna í mánuðinum, sem er um 35% samdráttur á milli ára. Í raun var bara aukning á útflutningsverðmætum tveggja afurðaflokka, það er ferskra afurða og lýsi. Nam útflutningsverðmæti ferskra afurða um 6,4 milljörðum króna í janúar sem er rúmlega 3% aukning á milli ára. Útflutningsverðmæti lýsis nam um 1,3 milljörðum króna og jókst um rúm 57% á milli ára. Um 24% samdráttur var í útflutningsverðmæti annarra sjávarafurða, en verðmæti þeirra í mánuðinum nam alls um 1,1 milljarði króna.

Ágætis byrjun í fiskeldi
Nokkur önnur þróun og jákvæðari er á útflutningi eldisafurða þennan fyrsta mánuð ársins. Nam útflutningsverðmæti eldisafurða rúmlega 3,1 milljarði króna í janúar, sem er stærsti janúarmánuður frá upphafi. Í krónum talið jókst útflutningsverðmæti eldisafurða um 22% frá janúar í fyrra. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt, en engu að síður myndarleg, eða sem nemur um 10%. Er því óhætt að segja að um ágætis byrjun sé á eldinu í ár. Sú þróun kemur kannski ekki á óvart enda eru horfur á enn frekari aukningu í framleiðslu á eldisfiski í ár og á næstu árum, líkt og kom fram í nýlegri frétt á Radarnum.

 

Deila: