Arctic Fish fær lífræna vottun

168
Deila:

Í byrjun vikunnar hlaut Arctic Fish lífræna vottun Evrópusambandsins sem kennd er við græna laufblaðið. Neytendavörur innan sambandsins, sem framleiddar eru á lífrænan hátt, eru merktar með laufblaðinu sem er sambærilegt við merki vottunarstofunnar Túns hér á landi, en hún annaðist einnig vottunina á Arctic Fish.

Í fréttatilkynningu frá Arctic Fish segir að sé vara merkt græna laufblaðinu þýðir það að allur ferill framleiðslunnar, allt frá hráefnum til ræktunar afurða, er undir eftirliti óháðs aðila sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurða sé í samræmi við kröfur um lífræna framleiðslu.

Græna laufblaðið: nýir markaðir og hærra verði fyrir afurðirnar

Þá segir að vottaðar lífrænar afurðir þykja hafa algjöra sérstöðu á markaði, eldisferlið er kostnaðarsamara en fyrir afurðirnar fæst einnig  mun hærra verð. Í lífrænni vottun felast einnig tækifæri til að sækja inn á markaði þar sem krafa um uppruna og rekjanleika er rík. Lífræna vottunin er viðbót við aðra framleiðslu félagsins í samræmi við alþjóðlega umhverfisstaðalinn ASC.

Stefnt að fyrstu uppskeru lífræns lax úr Ísafjarðardjúpi 2023
Gangi áætlanir varðandi útgáfu eldisleyfa eftir, í kjölfar útgáfu umhverfismatsins, stefnir Arctic Fish  á útsetningu lífrænna laxaseiða í Ísafjarðardjúp sumarið 2022 og uppskeru rétt rúmu ári síðar. Undirbúningur eldisins er þegar hafinn en nú er verið að hefja seiðaeldi úr fyrstu lífrænt ræktuðu hrognunum í seiðaeldisstöð Arctic Fish á Tálknafirði. Stöðin er eina landeldisstöðin hér á landi sem byggir á kerfi sem endurnýtir yfir 95% vatns og sú eina sem vitað er um á heimsvísu sem byggir á jarðvarðma og 100% endurnýjanlegri raforku.

„ Það er mikið tækifæri sem felst í lífrænni vottun fyrir umhverfisvænt fiskeldi eins og okkar. Við vorum búin að stefna á þessa vottun í langan tíma. Í seiðaeldisstöðinni okkar í Norður Botni í Tálknafirði erum við með afar gott kerjarými en gerðar eru kröfur um ákveðið rými til að uppfylla kröfur um lífrænt eldi. Við stefnum jafnframt á að framleiða lífrænt vottaðan lax með mun minni orkuþörf með áframeldi í sjó og undir lífrænum eldisstaðli sem gerir ráð fyrir talsvert meira rými í kvíum fyrir eldisfiska en í hefðbundnu fiskeldi,“ segir Eva Dögg Jóhannesdóttir, líffræðingur hjá Arctic Fish.

 

Deila: