Loðnuvinnsla hafin í Neskaupstað

114
Deila:

Sl. laugardag hófst loðnuvinnsla á ný í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eftir tæplega þriggja ára hlé. Á laugardagsmorgun landaði norski báturinn Fiskebas 310 tonnum og í kjölfar hans kom Slaatteröy með rúm 100 tonn. Í gærkvöldi kom síðan Sjöbris með 360 tonn. Ýmsum finnst það sérkennilegt að Norðmenn skuli veiða loðnuna skammt út af Austfjörðum á meðan íslensku loðnuskipin liggja í landi en skýringin er einfaldlega sú að kvótinn er lítill og beðið er eftir því að unnt verði að veiða Japansloðnu og að unnt verði að vinna hrogn úr loðnunni.

Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra gengur vinnslan í fiskiðjuverinu afar vel. „Þetta fer vel af stað og það er gott og gaman að finna loðnulyktina á ný. Hún er fersk og góð. Þetta er ágæt loðna en hún er ekki mjög stór og hrognafyllingin er enn ekki nægjanleg fyrir Japanina. Hér eru þrír Japanir sem fylgjast grannt með. Loðnunni fylgir ávallt ákveðin stemmning og það er gaman að upplifa hana á ný,“ segir Jón Gunnar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: