Marel úthlutar kaupréttum
Stjórn Marel hf. ákvað þann 5. febrúar 2021 að veita starfsmönnum kauprétti að allt að 4.831.000 hlutum í félaginu, þar af 1.505.000 til framkvæmdastjórnar. Kaupréttirnir verða veittir meðlimum framkvæmdastjórnar og tilteknum starfsmönnum félagsins í lykilstöðum.
Kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma. Skilmálar eru í samræmi við kaupréttarkerfi sem samþykkt var á aðalfundi Marel hf. þann 6. mars 2019 og í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi Marel hf. þann 18. mars 2020.
Meginefni kaupréttarsamninganna er eftirfarandi:
- Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á grunnverðinu EUR 5,70 á hlut.* Verðið skal leiðrétt fyrir arðgreiðslum sem kunna að verða ákveðnar frá útgáfudegi kaupréttanna.
- Ávinnslutími (e. vesting time) er þrjú ár frá úthlutun. Heimilt verður að nýta áunna kauprétti fjórum sinnum á ári eftir birtingu ársfjórðungsuppgjöra. Fyrsta nýtingartímabil mun hefjast eftir birtingu ársuppgjörs fyrir árið 2023, á fyrsta ársfjórðungi 2024. Kaupréttarhafar geta frestað nýtingu á kaupréttum sínum til fyrsta ársfjórðungs ársins 2025, þegar samningar renna út og falla þá ónýttir kaupréttir niður á sama tíma.
- Meðlimum framkvæmdastjórnar Marel ber að halda eftir hlutum sem nema fjárhæð hreins hagnaðar af kaupréttunum, þegar skattar hafa verið dregnir frá, þar til eftirfarandi fjárhæðarviðmiðum er náð, mælt í virði hlutafjáreignar í félaginu sem margfeldi af grunnárslaunum: forstjóri þrisvar sinnum árslaun; aðrir meðlimir framkvæmdastjórnar Marel tvisvar sinnum árslaun.
- Aðrir kaupréttarhafar þurfa ekki að halda eftir hlutum.
- Kaupréttur er aðeins gildur sé kaupréttarhafi í starfi hjá Marel (Marel hf. eða dótturfélaga þess) á nýtingardegi.
Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Marel hf. hefur veitt starfsmönnum sínum nemur nú 23,1 milljónum hluta, eða um 3,0% hlutafjár í félaginu, og er þá meðtalin þessi nýja úthlutun kauprétta. Heildarkostnaður félagsins vegna nýju samninganna á næstu þremur árum er áætlaður um 4,38 milljónir evra og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes.