Ægir helgaður veiðarfærum og veiðitækni

253
Deila:

Nýjasta tölublað tímaritsins Ægis er helgað veiðarfærum og veiðarfæragerð, en Ægisviðtalið nú er við Sigþór Kjartansson, skipstjóra á Sólbergi ÓF. Hann segir það hafa verið risastórt skref að fara af Mánabergi yfir á Sólberg. Í fyrra varð aflinn rúmlega 14.000 tonn og verðmæti hans um 5,7 milljarðar króna. Hvort tveggja líklega met.

Auk viðtalsins er í blaðinu fjallað um nýja færavindu sem Ísfell flytur inn, grein um Hampiðjuna sem er leiðandi í þróun og hönnun veiðarfæra, rætt við Sverri Þorgeirsson, netagerðarmann hjá Veiðarfæraþjónustunni í Grindavík, viðtal við Elísabetu Finnbjörnsdóttur, sem valdi netagerð framyfir gullsmíði, sagt frá nýjum bát, Einari Guðnasyni ÍS, fjallað um MLD og Ekkó toghlera og nýtt kolmunnatoll frá Egersund Íslandi kynnt.

„Hér í Ægi beinum við sjónum okkar að veiðarfærum og veiðitækni sem svo sannarlega hefur tekið stórstígum breytingum á síðustu árum. Fyrir leikmanninn kann það að hljóma þannig að stærri skip, meiri tækni og öflugri veiðarfæri séu birtingarmynd þess að moka enn meiri fiski upp á enn styttri tíma. En í reynd er þetta á margan hátt þveröfugt. Útþandir trollpokar með tuga tonna risaholum, líkt og sáust gjarnan á myndum í blöðum fyrir ekki svo ýkja mörgum árum, eru fortíð. Aflaverðmeðferð sem ekki tíðkast í dag vegna þess að þarna voru ekki verðmætin í fyrsta sæti heldur magnið. Við höfum með tengslum við neytendur og markaðinn nýtt okkur nútímatæknina til að gera betur, gera meira úr minna. Þar koma veiðarfærin við sögu, þar koma skipin við sögu. Og margt annað. En fyrst og fremst meiri virðing fyrir auðlindinni. Og við munum vonandi læra enn betur í framtíðinni að
umgangast fjöreggið,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis í leiðara blaðsins.

 

Deila: