Eimskip eykur þjónustu í útflutningi á ferskvöru til Bandaríkjanna og Kanada

142
Deila:

Eimskip mun á næstu vikum auka við þjónustu við útflytjendur á ferskvöru frá Færeyjum og Íslandi til Bandaríkjanna og Kanada. Félagið mun aðlaga siglingakerfi sitt til að mæta metnaðarfullum kröfum viðskiptavina um styttri flutningstíma, umhverfisvænni flutninga og ferskari og verðmætari vöru. Brottför á Ameríkuleið félagsins frá Íslandi er flýtt og viðkomu höfnum á vesturleið fækkað til að ná vörum á markað fyrr í vikunni sem skiptir viðskiptavini félagsins mjög miklu máli.

„Með því að aðlaga okkar öfluga og áreiðanlega siglingakerfi getum við boðið enn betri valkost í útflutningi á ferskum afurðum vestur um haf sem hafa verið vaxandi á síðustu misserum.  Við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni í okkar rekstri og finnum fyrir auknum áhuga viðskiptavina okkar á umhverfisvænni flutningum og því jákvætt að geta bætt þessa þjónustu. Við þekkjum dæmi þess að viðskiptavinir okkar hafi markað sér þá stefnu að nota eingöngu skip í flutninga á sínum vörum í stað flugvéla en kolefnislosunin með skipi og flutningabíl á þessari leið miðað við eitt tonn af ferskvöru er til dæmis samanlagt um 95% lægri en í flugi.“, segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

Í fyrstu verður flutningur á ferskum laxi frá Færeyjum og Íslandi í fyrirrúmi en líklegt er að hvítfiskur og fleiri vörur bætist við á næstu misserum enda hafa fjölmörg fyrirtæki sett umhverfismál á oddinn ásamt því að nýta sér framfarir í kælitækni og náð árangri með breyttri meðhöndlum afurða.

Breytingarnar taka gildi í lok mánaðarins.

 

Deila: