Fagnar því að fá loðnulykt í bæinn
Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir gott að vera loks búinn að fá loðnulykt í bæinn. Fyrirtæki á Austfjörðum frysta nú loðnu af norskum skipum á meðan þess er beðið að íslenski loðnuflotinn hefji veiðar. Frá þessu er greint á ruv.is
Eftir tveggja ára loðnubrest eru loðnuskip nú aftur farin að landa á Austfjörðum. Norsk skip að vísu, en fjöldi þeirra er nú við veiðar í landhelginni austur af landinu. Erlend skip mega veiða um 45 prósent af þeim 127 þúsund tonnum sem heimilt er að veiða í vetur.
Góð tilfinning að fá loðnu aftur til vinnslu
„Það er auðvitað bara góð tilfinning að við séum að fá loðnu aftur til vinnslu eftir síðustu ár,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. „Og ég held að maður verði bara að fagna því að það er komin loðnulykt í bæinn og húsið farið að snúast. Þannig að það er bara gleði og hamingja.“
Margfeldisáhrifin af loðnunni mikil
Verið er að frysta loðnu hjá þremur fyrirtækjum í Fjarðabyggð; Síldarvinnslunni í Neskaupstað, Eskju á Eskifirði og Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Loðnan er því afar mikilvæg fyrir þessi samfélög. „Auðvitað þekkjum við alveg margfeldisáhrifin af loðnunni,“ segir Gunnþór. „Það hafa 50 manns verið að vinna um helgina, hér hjá okkur er verið að vinna í nót af norsku skipi, þannig að það er aksjón á netaverkstæðinu. Loðnan hleypir bara lífi í bæinn á þessum tíma.“
Óvíst hve loðnan af norsku skipunum endist lengi
Það er auðvitað ekki ljóst hve lengi verður hægt að treysta á þennan afla norsku skipanna. Fyrirtækin hér keppa við norskar og færeyskar vinnslur um kaup á loðnunni og kvóti Norðmanna í landhelginni klárast fyrr en síðar. Íslenskar útgerðir bíða eftir að loðnan verði hæf til vinnslu á verðmætustu mörkuðunum áður en haldið er til veiða á þeim 70 þúsund tonnum sem eru hlutur Íslands í útgefnum kvóta.
Skipin tilbúin og búið að taka veiðarfærin um borð
Fulltrúar japanskra loðnukaupmanna eru mættir til að skoða loðnuna en hjá þeim skiptir hrognafyllingin mestu máli. „Við erum náttúrulega með skipin tilbúin. Það er búið að taka veiðarfærin um borð þannig að kallarnir bíða bara eftir kallinu og við fylgjumst með á miðunum og bíðum eftir að loðnan komi upp í fjöru og verði komin með meiri hrognafyllingu og verðmætin aukist. Þá munum við halda til veiða,“ segir Gunnþór.