Ástand sjávar kannað á Bjarna Sæmundssyni

127
Deila:

Farið var 15. febrúar 2021, í árlegan vetrarleiðangur til athugunar á ástandi sjávar á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Verkefnið miðar að langtímavöktun á ástandi sjávar umhverfis landið og eru mælingar gerðar ársfjórðungslega. Gögnin sem þannig safnast eru nýtt við fjölmargar rannsóknir á ári hverju. Gerðar verða mælingar á hitastigi, seltu og súrefni á fleiri en 70 stöðvum kringum landið á landgrunninu og utan þess. Sýnum til mælinga á næringarefnum og kolefniskerfi sjávar verður safnað á þrem stöðvum við Faxaflóa, Langanes og Stokksnes. Jafnframt verða gerðar mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins. Þessi leiðangur er einkum mikilvægur því „á veturna sýnir sjórinn sitt rétta andlit“, líkt og Svend Aage Malmberg fyrrum haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun orðaði það gjarnan. Með öðrum orðum, þetta er sá tími ársins sem lóðrétt blöndun yfirborðslaga sjávar er í hámarki og ljóstillífun þörunga og upptaka þeirra á næringarefnum og kolefni er í lágmarki. Við þær aðstæður endurspegla mælingar á eðlis- og efnafræðilegum þáttum sjávar einna best ástand og sjógerðir kringum landið.

Fyrsta sondustöð í Faxaflóa, 15. febrúar 2021. Myndin sýnir grind með sondu, sem er síritandi tæki sem mælir hita, seltu, þrýsting og súrefni í vatnssúlunni, og sem hefur sjótaka sem gera kleyft að taka vatnssýni á ákveðnum dýpum. Ljósm. Andreas Macrander.

Í Berufirði er gert ráð fyrir að leggja út neðansjávarlögn með síritandi mælitækjum fyrir strauma, hita, seltu og súrefni við botn. Þessar mælingar eru hluti af vöktun á umhverfisaðstæðum á fiskeldissvæðum.

Auk þessa verður sinnt gagnasöfnun af ýmsu tagi fyrir innlenda og erlenda samstarfsaðila Hafrannsóknastofnunar. Í því fellst m.a. bæði að endurheimta og sjósetja mismunandi dufl.

Áætlað er að leiðangurinn vari í 15 daga og fylgjast má með gangi leiðangurs á skip.hafro.is.

 

Deila: