Beitir með 900 tonn af ekta Japansloðnu

83
Deila:

Beitir NK kom í morgun til Neskaupstaðar með 900 tonn af loðnu sem fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Loðnan fékkst í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason skipstjóra.

„Við fengum þennan afla í gær og í gærkvöldi. Besta kastið, tæp 500 tonn, fékkst eftir kvöldmatinn. Þegar við komum á miðin í gær var talsvert mikið að sjá en það var álandsvindur og þá hljóp loðnan upp í fjöruna. En þetta endaði mjög vel og þetta er fínasta loðna sem við erum með. Þetta er 40% hrygna, 13-14% hrognafylling og átulítið. Hér er um ekta Japansloðnu að ræða. Mér líst vel á framhaldið, það er ekkert annað í boði og gaman að loðnuveiðar skuli hafnar á ný. Nú er allur íslenski flotinn að fara af stað og þá fást betri upplýsingar um hvernig loðnan gengur,“ segir Tómas.

Eins og fram hefur komið hafa Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur samstarf um veiðarnar. Þegar rætt var við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, í morgun sagði hann að heldur lítið væri að gerast þá stundina. „Í gær vorum við aðallega að leita fyrir Beiti en samkvæmt planinu átti hann fyrst að fara með afla að landi. Við tókum þó eitt kast í gærkvöldi og fengum 200 tonn. Í gærkvöldi voru fínustu lóðningar en loðnan stóð heldur djúpt. Það er lítið um að vera akkúrat núna en það getur breyst þegar líður á daginn,“ segir Hjörvar.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: