Loðna á stóru svæði

119
Deila:

Von var á fyrstu loðnunni á vertíðinni til Vopnafjarðar nú upp úr hádeginu er Venus NS átti að koma til hafnar með um 560 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í tveimur köstum í Meðallandsbugt, nokkuð vestur af Ingólfshöfða.
,,Þetta lítur bara nokkuð vel út en dálítið erfitt að átta sig á stöðunni eftir þá miklu brælu sem var um helgina. Við tókum bara lítinn skammt sem hentar vinnslunni vel til að komast í gang,” segir Bergur Einarsson skipstjóri, í samtali á heimasíðu Brims.
Loðnan, sem áhöfn Venusar veiddi, var væn og hrognafyllingin var komin í 16,2% ef marka má þau sýni sem tekin voru. Loðnan hentar því vel til heilfrystingar fyrir Japansmarkað en nokkuð er í að hrognafyllingin og þroski hrognanna verði það mikill að hrognataka og -frysting geti hafist.
Um 20 tíma sigling er frá Meðallandsbugt og norður til Vopnafjarðar og reiknar Bergur með að löndun taki um sólarhring. Víkingur AK fór frá Reykjavík í morgun áleiðis á miðin þannig að það ætti að verða nóg að gera í loðnufrystingu á Vopnafirði næstu dagana.

Deila: