Það er alls staðar ýsa

193
Deila:

,,Ufsinn er óvenju brellinn um þessar mundir. Hann hefur ekki fundist á Vestfjarðamiðum og hér fyrir sunnan land er leitun að honum. Við fáum eitt og eitt þokkalegt ufsahol og svo er leitað og leitað,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK í samtali á heimasíðu Brims.

Að sögn Leifs hefur hann leitað fyrir sér á Eldeyjarbanka, Reykjanesgrunni og Fjöllunum að þessu sinni.
,,Það er nóg af gullkarfa og ýsu en ufsinn er sem fyrr segir vandfundinn. Reyndar er það svo að við erum á hálfgerðum flótta undan ýsunni því það virðist vera ýsa alls staðar þar sem trolli er dýft,” segir Leifur en skipið á að vera í höfn í Reykjavík nk. fimmtudag.
Leifi reiknast til að aflinn sé kominn í 60 tonn.
,,Við vildum gjarnan vera með meira en það hefur verið skítabræla á okkur og hvergi skjól að hafa. Veðrið var virkilega slæmt um helgina en við reyndum hvað við gátum. Við erum aðeins byrjaðir að verða varir við hrygningarþorsk en í augnablikinu höfum við þó mestar áhyggjur af því að veiða ekki of mikið af ýsu. Fiskurinn virðist annars vera vel haldinn og er stór og góður,” segir Friðleifur Einarsson.

Deila: