Fjögur skip með 6.000 tonn eða meira

74
Deila:

Fjögur skip fá nú úthlutað 6.000 tonnum af loðnu eða meira, en alls fá 18 skip úthlutað heimildum. Heildarkvótinn er 66.133 tonn. Það er mikil breyting frá síðustu vertíð fyrir þremur árum. Þá var leyfilegur heildarafli nærri þrefalt meiri, 186.290 tonn. Þá var úthlutað til 19 skipa og sjö voru með meira en 10.000 tonn.

Kvótahæstu skipin nú eru Heimaey VE með 6.945 tonn, næst kemur Sigurður VE með 6.275 tonn, þá Venus NS með 6.176 tonn og loks Björgvin EA með 6.081 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Ljóst er að nokkrar tilfærslur milli skipa eiga eftir að eiga sér stað. Til dæmis mun Samherjatogarinn Björgvin EA ekki fara á loðnu. Á hann eru vistaðar loðnuveiðiheimildir, sem áður voru á Vilhelm Þorsteinssyni, en nýtt skip með sama nafni er nú í smíðum og mun líklega ekki ná loðnuvertíðinni. Heimildir hans munu því færast yfir á annað eða önnur skip. Engar tilfærslur á aflaheimildum eru enn skráðar á aflastöðulista Fiskistofu.

Á vertíðinni fyrir þremur árum lönduðu 19 skip loðnu. Aflahæstu skipin þá voru Venus NS með 18.158 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 16.051 tonn, Víkingur AK með 15.972 tonn, Börkur NK með 14.148 tonn, Heimaey VE með 13.741 tonn, Beitir NK með 13.248 tonn og Sigurður VE með 10.777 tonn.

 

Deila: