„RÚV reiddi hátt til höggs en þagði þegar rannsókn var felld niður“

211
Deila:

„Síðastliðinn föstudag var greint frá því að ríkissaksóknari Noregs hefði fellt niður sakamál sem varðaði ætlað peningaþvætti í viðskiptum norska bankans DNB og félaga sem tengjast Samherja. Rannsóknin hófst eftir að Ríkisútvarpið setti fram ásakanir í þessa veru í nóvember 2019.“

Svo segir í nýjum pistli á heimasíðu Samherja. Þar segir ennfremur:

„Ríkissaksóknarinn felldi málið niður því það kom ekki í ljós nein refsiverð háttsemi sem leitt gæti til ákæru. Niðurstaðan er auðvitað stórtíðindi fyrir Samherja enda hefur verið klifað á peningaþvætti í umfjöllun fjölmiðla frá nóvember 2019 vegna viðskipta við DNB og ávallt vísað til þessarar rannsóknar í Noregi.

Ríkisútvarpið hefur frá nóvember 2019 varið tugum mínútna af frétta- og dagskrárefni sínu í ásakanir um hugsanlegt peningaþvætti. Þannig fjallaði stór hluti Kveiksþáttarins sem var sýndur 26. nóvember 2019 um þetta. Þar birtist Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður Kveiks, ábúðarfullur á skjánum og sagði: „Einn angi rannsóknarinnar í Noregi beinir sjónum að því hvernig þetta var yfir höfuð hægt. Horft er á það sem virðast vera veikar varnir og aðgerðir norska ríkisbankans DNB við peningaþvætti.“ Strax í kjölfarið fylgdi svo ítarleg umfjöllun um greiðslur félaga sem tengjast Samherja inn á bankareikninga í DNB bankanum. Öll umfjöllunin miðaði að því að gera þessar greiðslur tortryggilegar en þær voru inntar af hendi svo hægt væri að greiða skipverjum á réttum tíma.

Eftir þessa umfjöllun birtust svo margar fréttir og fréttaskýringar um þetta mál. Þannig birtu fréttamenn Kveiks ítarlega fréttaskýringu hinn 13. desember 2020 um sama efni en orðið „peningaþvætti“ kemur þar fyrir tíu sinnum.

Í ljósi þess hversu drjúgum tíma og plássi Ríkisútvarpið varði á liðnum árum í umfjöllun um ætlað peningaþvætti, vegna viðskipta félaga sem tengjast Samherja við DNB, var starfsfólk Samherja eðlilega mjög forvitið að sjá hvernig fjallað yrði um þá ákvörðun ríkissaksóknara Noregs að fella málið niður. Föstudaginn 12. febrúar birtist ein lítil lesin frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Þar var vísað til Wikileaks en ekkert minnst á ásakanir og umfjöllun Ríkisútvarpsins. Engin frétt birtist um málið í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins um kvöldið og ekkert minnst á málið. Ekki eitt stakt orð.

Dagskrárvaldi fjölmiðla fylgir mikil ábyrgð. Það þykir tilhlýðilegt og eðlilegt þegar settar eru fram alvarlegar ásakanir, til dæmis á forsíðu dagblaðs, að segja frá því að minnsta kosti inni í miðju blaði þegar í ljós kemur að ásakanirnar áttu ekki við rök að styðjast. Yfirleitt viðhafa þeir fjölmiðlar sem hafa snefil af sómakennd slík vinnubrögð. En það er kannski til of mikils ætlast í tilviki Ríkisútvarpsins.“

Samherji lét taka saman stutt myndband til útskýringar https://youtu.be/ylBOcADgfqg

 

 

Deila: