Hrognafylling orðin 17%

115
Deila:

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1100 tonn af loðnu. Byrjað var að vinna úr honum um hádegið en þá var lokið við að vinna 900 tonn sem Beitir NK kom með daginn áður. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki í gær og spurði út í veiðiferðina.

„Við fengum aflann í fjórum köstum í Meðallandsbugtinni. Tókum þrjú köst í gær og eitt 200 tonna kast á mánudagskvöld. Þetta er fínasta loðna; hrygnuhlutfall er gott, 17% hrognafylling og átan einungis 0,3. Þetta hlýtur að vera gott í Japanann. Það var ekki mikið að sjá af loðnu þarna í bugtinni í gær. Það var mun meira að sjá á mánudaginn. En þarna eru öll skipin að berja á þessu. Ég tel að þetta sé alls ekki fremsti hluti loðnugöngunnar og það eigi eftir að gjósa upp loðna í Háfadýpinu eða við Eyjar á næstu dögum. Annars er loðna mjög víða, meðal annars hérna fyrir austan,“ segir Hjörvar.
Myndin er frá Norðfjarðarhöfn í gærmorgun. Verið að ljúka við að landa úr Beiti NK og Börkur NK kominn með 1100 tonn af gæðaloðnu.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: