Lítill ýsukvóti en gífurleg ýsugengd

116
Deila:

Bæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi eða rúmlega 70 tonnum í Vestmannaeyjum í gær. Afli beggja skipa var blandaður; þorskur, ufsi og karfi. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana, Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey og Jón Valgeirsson á Bergey, og spurði þá hvort vertíðarfiskur væri farinn að sjást. Birgir sagði að hann væri að byrja að ganga og drjúgur hluti afla Vestmannaeyjar hefði verið stór vertíðarþorskur.

„Við byrjuðum á Selvogsbankanum með fótreipistroll en færðum okkur síðan í Háfadýpið. Það gekk vel að fiska. Það sem ég hef helst áhyggjur af um þessar mundir er ýsan. Það er búið að veiða mjög mikla ýsu miðað við kvóta og ég er hræddur um að mörg skip lendi í vandræðum á vertíðinni vegna þess að ýsan vill blandast þorskinum. Það er semsagt lítill ýsukvóti en gífurleg ýsugengd og það er ýsa alls staðar, hún er fyrir vestan, sunnan, norðan og austan. Og þetta er bæði smá ýsa og stór. Við á skipum Bergs-Hugins erum vel settir með ýsukvóta miðað við aðra en samt höfum við áhyggjur af stöðunni. Ég held að magnið af ýsu við landið sé í hámarki, allavega man ég ekki eftir slíku áður og það eru allir að flýja ýsuna,” segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson tekur undir með Birgi hvað ýsuna varðar. „Það er rétt að ýsan er að verða vandamál. Það má kannski kalla það lúxusvandamál vegna þess að það er óþægilega mikið af henni alls staðar og hvergi friður fyrir henni. Annars gekk vel hjá okkur í veiðiferðinni. Við vorum á Selvogsbankanum og fengum þar rígaþorsk og dálítið af ufsa og fleiri tegundum. Það er aðeins að koma vertíðarbragur á þetta. Sannast sagna var þessi túr eins þægilegur og hugsast getur; stutt að fara, blíðuveður og fínt fiskirí,” segir Jón.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson

 

Deila: