Samfelld loðnuvinnsla og loðnu víða að sjá

208
Deila:

Samfelld loðnuvinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað síðustu dagana. Lokið var við að landa 1100 tonnum úr Berki NK sl. nótt og var þá hafist handa við að þrífa en Beitir NK kom síðan klukkan sjö í morgun með 1200 tonn. Aflann fékk Beitir að mestu í Háfadýpinu austan við Vestmannaeyjar og er um að ræða fínustu Japansloðnu með upp í 19% hrognafyllingu og lítilli átu. Bjarni Ólafsson AK hélt til loðnuveiða sl. miðvikudagskvöld og er gert ráð fyrir að hann verði kominn með afla til Neskaupstaðar þegar vinnslu úr Beiti lýkur.

Það fréttist víða af loðnu. Til dæmis fékk grænlenska skipið Polar Amaroq góðan afla í gær út af Hornafirði og norsk skip greindu frá því að margar góðar torfur væru austur af Norðfjarðarhorni. Þá hafa einnig borist loðnufréttir frá Grímsey. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í morgun en þá var skipið statt á Selvogsbankanum.

„Þetta er bara hörkuloðnuvertíð. Auðvitað mætti vera meiri kvóti en menn eru að gera mikil verðmæti úr því sem aflast. Þetta er fimmti veiðitúrinn hjá okkur en við erum búnir að landa fjórum sinnum fullfermi af frystri loðnu. Nú liggjum við bara og erum að vinna, það eru engin vandræði að fá í vinnsluna hæfilega skammta. Það virðist vera loðna alveg héðan frá Selvogsbankanum og austur fyrir land. Þetta er heilmikil veisla. Við gerum ráð fyrir að landa á þriðjudaginn í Hafnarfirði,“ segir Geir.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan á loðnunni gangi mjög vel og afköstin séu góð. „Þetta er fínasta loðna með góðri hrognafyllingu og við heilfrystum hana.  Japanirnir eru afar sáttir við þessa loðnu þannig að það er allt í góðu standi. Við gerum síðan ráð fyrir að hefja framleiðslu á loðnuhrognum um mánaðamótin. Þá verður loðnan farin að losa pokann og þá er kominn tími til að byrja að kútta,“ segir Jón Gunnar.

 

Deila: