„Samstarfsmenn Samherja telja útgerðina hafa rænt sig“

150
Deila:

„Rannsóknarendurskoðendur sem ráðnir voru af samstarfsfólki Samherja í Namibíu telja útgerðina hafa haft rangt við og svikið fé af þeim. Lagt er til að málið verið kært til lögreglunnar og Samherji krafið um milljarða króna.“

Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik á RUV í gær og er umfjöllunin birt á ruv.is í dag. Þar segir ennfremur:

„Árið 2013, stuttu eftir að Samherji hafði ákveðið að hefja starfsemi í Namibíu, náði útgerðin samkomulagi við þrjá hópa, sem 15 kvótahafar í Namibíu mynduðu saman, um stofnun útgerðar í landinu. Samherji ætlaði að leggja til skip, en kvótahafarnir kvóta. Samherji átti skip en gat ekki eignast kvóta í Namibíu. Kvótahóparnir þrír áttu kvóta en ekki skip.

Samhliða rak Samherji sýna eigin útgerð, Mermaria, sem veiddi kvóta sem skaffaður var í gegnum ríkisútgerðina Fishcor og milliríkjasamning Namibíu og Angóla. Það er starfsemi þess félags sem sjónir yfirvalda hafa beinst að hingað til.

En þessi rekstur fór illa í samstarfsfólkið í Arcticnam, enda útgerðirnar reknar út af sömu skrifstofunni og af sama fólkinu, og upp vöknuðu spurningar um hvort reksturinn væri að fullu aðskilinn.

Á endanfum fór það svo að fulltrúar eins þriggja sameignarfélaga namibískra kvótahafa, Sinco Fishing, leituðu til rannsóknar-endurskoðendanna Nexus í Suður Afríku eftir aðstoð vegna gruns um að Namibísku meirihlutaeigendur Arcticnam útgerðarinnar, hafi verið sviknir af Samherja.

Rannsakendunum þótti ýmis atriði vekja spurningar; eins og ráðgjafagreiðslur sem snarhækkuðu eftir því sem á leið samstarfið og 300 þúsund dollara kostnaður fyrir skemmtanahald á sama tíma og félagið átti að vera í bullandi taprekstri.

Allt í allt telja þeir sig hafa fundið jafnvirði 31 milljón bandaríkjadollara sem Samherji hafði náð með klækjum úr rekstrinum, með því að hlaða ótengdum kostnaði á útgerðina, tæpar fimm milljónir vegna ofrukkunar á láni fyrir verksmiðjutogarann Heinaste og 6,5 milljónir sem vantaði uppá greiðslur fyrir kvótann.

Samtals leggja þeir til að kvótahafarnir krefji Samherja um 43 milljónir bandaríkjadollara.

„Áformin voru skýr; hve mörgum dyrum fáum við upplokið til að ná fé út úr starfsemi fyrirtækisins? Af Íslendinga hálfu; hvað getum við skírt það? Getum við kallað það umsýslulaun, rétthafagreiðslur?“ spyr Werner Bouwer, framkvæmdastjóri Nexus.

Honum var falið, ásamt Jan-Hendrik Adendorff rannsóknarendurskoðandi, að kafa ofan í gögn útgerðarinnar fyrir kvótahafana.

Gögnin sem rannsókn þeirra byggði á voru meðal annars yfirlit af bankareikningum Arcticnam, sem sýna milljónir streyma til tengdra aðila – fyrirtækja í stóru og flóknu neti Samherja.

Þeir segja ljóst að Samherji hafi til að myndað rukkað kvótahafana um sama hlutinn tvisvar undir ólíkum nöfnum.

Ef skoðaðir eru samningarnir um umsýslu- og rétthafagreiðslur þá verður fyrir grátt svæði,“ segir hann og fullyrðir að Arcticnam hafi með samningunum í raun greitt tvisvar fyrir stjórnun og umsjón félagsins, sem var í höndum Samherja.

„Síðar þegar lá fyrir að rekstrar-félagið gat ekki borgað þetta allt var það sett á efnahags-reikninginn sem skuldir,“ útskýrir Werner.

„Sá samningur var við ákveðið félag og allt í einu eru rétthafagreiðslur greiddar til Mermaria sem ekki átti aðild að neinum samningum við rekstrarfélagið. Þetta er tíska sem við sjáum víða stundaða. Víða má sjá vísbendingar um það sem við köllum stólaleikinn.“

Þá hafi ekki alltaf legið ljóst hvaða fyrirtæki fengi þessar „royalty“ greiðslur.

Jón Óttar Ólafsson, sem Samherji segir að hafi verið sendur til Namibíu til að framkvæma þar rannsókn á starfseminni, átti þátt í þessum stóladansi.

Í tölvupósti sem hann sendi á samstarfsfólk sitt hjá Samherja spyr hann hvort „það sé nauðsynlegt að fá undirskrift hinna hluthafanna“ til að byrja að borga til Máritíus. „Það yrði erfitt að fá þá til að skrifa undir og ef það væri mögulega hægt best að sleppa því.“

Royalty-greislur frá Namibíu til Samherja á Máritíus voru, samkvæmt tölvupóstum innan úr Samherja, teiknaðar upp til að koma peningum inn á bankareikninga Samherja á Kýpur.

Dæmið um royalty greiðslurnar er lýsandi fyrir það sem Jan-Hendrick og Werner segja að hafi verið gegnumgandandi stefna Samherja; að halda samstarfsfólki sínum í myrkri um hvernig rekstrinum væri í raun háttað.

„Af því Íslendingarnir stjórnuðu því. Það voru mismunandi félög sem komu hvert í annars stað og það er samkvæmt minni reynslu gömul peningaþvættisaðferð þar sem eignaraðild er marglaga sem og fjárstreymið. Það er reynt að rugla sem mest í ríminu og við komumst að því að það var einmitt tilfellið,“ segir Werner.

Endurskoðendurnir segja að Samherji hafi haft töglin og hagldirnar þegar kom að öllum millifærslum og upplýsingagjöf. Namibísku samstarfsmenn þeirra hafi verið háðir því sem Samherji sagði þeim.

„Þeir réðu öllum upplýsingum, sem veitti þeim mikil völd til í reynd að borga sjálfum sér, velti maður því fyrir sér. Og svo eftirleikurinn, sé hann skoðaður, þá voru þeim greiddar rétthafagreiðslur til að draga frá eigin hagnaði,“ segir Jan-Hendrik.

„Ég hef aldrei rekist á slíkt áður, að sameiginlegur hluthafi eða viðskiptafélagi greiði manni rétthafagreiðslur til í reynd að minnka ágóða, svíkja, spilla og svíkja undan skatti, allt í einu lagi.“

Jan-Hendrik og Werner telja jafnframt að Samherji hafi haft rangt við þegar reiknað var út hversu háar greiðslurnar ættu að vera.

Strax þegar samkomulag komst á milli Samherja og kvótahafanna var kveðið á um hvað hver og einn ætti að hafa í tekjur af samstarfinu. Samherji átti að fá 5 prósent af nettó tekjum útgerðarinnar í „royalty“ gjald og kvótahafarnir 17 prósent af nettó tekjum fyrir að skaffa kvótann. Eftir sem leið á samstarfið, fór Namibísku hluthafana að gruna að greiðslurnar til þeirra væru ekki réttar.

Þau takmörkuðu bankagögn sem Nexus hafði aðgengi að (þar sem Samherji hefur ekki opnað bókhaldið fyrir meðeigendum sínum) gáfu til kynna að greiðslurnar væru lægri en búast hefði mátt við.

Til að reyna að staðfesta það tóku rannsakendur mið af „royalty“ greiðslum frá Arctinam til Samherja á Máritíus, enda áttu útreikningarnir að byggja á sömu grunn tölunni. Niðurstöðurnar af þeim útreikningum voru eftirfarandi:

Árið 2013 vantaði 60 milljónir namibíudollara, árið 2014 vantaði 9 milljónir og 2018 386 þúsund. Greiðslur á árunum 2015-2016 voru réttar.

Samtals vantaði 70 milljónir namibíudollara, eða rétt um 620 milljónir króna, upp á að þessar greiðslur til namibísku kvótahafanna væru til að það væri í samræmi við greiðslu „royalty“ gjalda til Samherja á Máritíus.

Að þeirra mati gerðust Samherjamenn sekir um glæpsamleg svik.

Út frá gögnunum sem þeir höfðu aðgengi að lýsa þeir starfseminni svona:

„Þetta snerist um fólk sem fór á fætur einn morguninn og ákvað að hrinda í framkvæmd umfangsmikilli áætlun. Þetta er flókin áætlun, þaulskipulögð og hnökralaus í framkvæmd. Hún var vel útfærð og vel útpæld og skipulögð og nánast að yfirlögðu ráði,“ segir hann.

Niðurstaða þeirra er að ráðleggja kvótaleyfishöfunum að kæra Samherja og tengd félög til yfirvalda.

Werner segir sumt í rannsókninni hafi komið sér á óvart.

„Það sem stakk sérstaklega í augun var hrokinn og yfirgangurinn hjá Íslendingunum við reksturinn og svo hvernig þeir útilokuðu namibíska samstarfsmenn sína. Það endurspeglar afskiptaleysið og refsileysið; enginn getur snert mig,“ segir hann.

„Það er mikilvægt og við ráðleggjum viðskiptavinum okkar það, og það er sömuleiðis reynsla mín, að það eina sem hindrar yfirgang og refsileysi eru aðgerðir, aðgerðir frá lögregluyfirvöldum.“

Á Íslandi hafa viðbrögð einhverra við uppljóstrun um þetta mál verið á þá leið að mútur sé einfaldlega hluti af því rekstrarumhverfi fyrirtækja í Afríku. Til að stunda þar viðskipti, þurfi að spila sama leik og aðrir og að Afríka hafi orðið illa fyrir barðinu á þeim sem víla ekki fyrir sér að borga aðeins undir borðið.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði til dæmis þetta:

„Rót vandans er kannski í þessu tiltekna máli veikt stjórnkerfi og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera svona einhverskonar undirrót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“

Og þetta viðhorf kannast rannsakendurnir við.

„Við könnumst líka við þessar útskýringar. Í Suður-Afríku, þegar fyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki færa út kvíarnar til annarra Afríkulanda. Svikahrappar réttlæta verk sín fyrir sjálfum sér til þess að geta haldið þeim áfram,“ segir Werner.

„Stuldur er stuldur, þjófnaður er þjófnaður, spilling er spilling. Prettir eru prettir, skattsvik eru skattsvik. Það er ekki nokkur vegur að réttlæta þetta allt sem hina afrísku aðferð. Svo að við vonum að af þessari rannsókn og af rannsókninni á öðrum sem að þessu koma sendi það þessi skilaboð: Látið Afríku í friði; auðlinda-arðránið skal ekki viðgangast,“ segir Jan-Hendrik.

Samherja var kynnt efni umfjöllunarinnar 15. febrúar síðastliðinn. Þar með talið þær ásakanir sem fram koma í skýrslunni, sem unnin var fyrir meðeigendur Samherja í útgerðinni Arcticnam.

Í svari fyrirtækisins segir að forstjóri þess og aðrir starfsmenn telji útilokað að veita viðtal vegna fyrri umfjöllunar um Samherja. Þeir telji engu að síður ljóst að Kveikur sé „á alvarlegum villigötum“ í efnistökum sínum, án þess að það hafi verið útskýrt nánar.

Svar Samherja í heild:

„Í ljósi þess hvernig þið hafið fjallað um málefni tengd Samherja í gegnum tíðina, þar sem farið hefur verið afar frjálslega með staðreyndir, upplýsingar slitnar úr samhengi eða beinlínis verið farið með rangt mál gegn betri vitund, er útilokað fyrir Samherja, eða starfsmenn og verktaka fyrirtækisins, að verða við ósk ykkar um viðtal. Starfsmenn Samherja geta ekki með nokkru móti treyst því að í slíku viðtali verði ekki upplýsingar slitnar úr samhengi eða aðeins það efni birt sem þjónar þeim málstað sem þið reynið að tefla fram.

Í fyrirspurn ykkar er engum spurningum beint að Samherja en af efni hennar má ráða að Kveikur sé á alvarlegum villigötum í þeim efnistökum sem þið lýsið og því hvetjum við ykkur eindregið til að fara aftur yfir heimildir og frásögn heimildarmanna til að ganga úr skugga um að þar sé rétt farið með staðreyndir.““

https://www.ruv.is/kveikur/samherjaskjolin/samstarfsmenn-samherja-telja-utgerdina-hafa-raent-sig/

 

 

Deila: