Arctic Fish á hlutabréfamarkað
Hafin eru viðskipti með bréf Arctic Fish á Euronext markaðnum í Osló og er það í kjölfarið af hlutafjáraukningu og frumútboði upp á 9 milljarða króna sem lauk 15. febrúar síðastliðinn. Auðkenni fyrirtækisins verður AFISH.
Fjármögnun á frekari vexti
Stærstur hluti frumútboðsins eða 5,3 milljarðar króna fer í að fjármagna frekari vöxt félagsins og vaxtartækifæri innan virðiskeðju fyrirtækisins. Arctic Fish áætlar að vaxa úr núverandi 7.400 tonna árlegri sölu upp í 24.000 tonna árlega sölu árið 2025. Reksturinn batnar stöðugt og búast má við aukinni stærðarhagkvæmni samhliða vaxandi framleiðslu.
Framkvæmdastjóri félagsins Stein Ove Tveiten segir: „Við erum mjög ánægð með þann árangur sem hefur náðst, framleiðslukostnaður í sjóeldinu er nú þegar orðinn samkeppnishæfur við norska framleiðendur og við höfum sett markið á að bæta framleiðsluna enn frekar. Markmiðið er að skapa eftirtektarverðan, sjálfbæran og arðbæran rekstur hér á Vestfjörðum.“
Innlengt eignarhald eykst og sterkir eigendur með áframhaldandi stuðning
Íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar auk starfsmanna félagsins tóku þátt í hlutafjárútboðinu og hefur íslenskt eignarhald nú aukist úr 2,5% upp í rúm 10% af heildarhlutafé félagsins. Norway Royal Salmon aðaleigandi félagsins jók hlutafjáreign sína um 3 milljarða króna og mun eftir aukninguna eiga 51,3% hlut í félaginu.
DNB markaðir, Pareto Securities ásamt Arion Banka sáu um hlutafjárútboðið og skráningarferlið.
Frétt og mynd af bb.is