Íslenskur vísindamaður í hópi frumkvöðla í kortlagningu þörungahluta Bláa hagkerfisins

232
Deila:

Alþjóðlegur fimmtán manna hópur valinkunnra vísindamanna birti nýlega grein í vísindatímaritinu Frontiers in Marine Science. Þar er gerð tilraun til að kortleggja þörungaframleiðslu í Evrópu. Í ljós kom að 447 fyrirtæki í vinnslu eða ræktun þörunga eru í Evrópu. Þetta er umfangsmesta tilraun til slíkrar vísindalegrar kortlagningar sem gerð hefur verið. Verkefnið tengist áherslum Evrópusambandsins og einstakra ríkja varðandi Bláa hagkerfið.

Höfundar, en þeirra á meðal er Dr. Tryggvi Stefánsson hjá líftæknifyrirtækinu Algalíf í Reykjanesbæ, fundu alls 447 slík fyrirtæki í 23 löndum í álfunni. Fyrirtækin eru gróflega flokkuð í þrennt; þau sem vinna úr þangi eða þara (stórþörungar), þau sem rækta cyanobakteríuna Spírulína eða þá sem framleiða örþörunga. Algalíf fellur til að mynda í síðasta flokkinn.

Tryggvi Stefánsson

Rúmur helmingur framleiðir örþörunga eða Spírulína en tæpur helmingur með stórþörunga. Í þeim hluta eru Frakkland, Spánn og Írland stærst. Bróðurpartur þeirra 225 aðila sem vinna með stórþörunga, nýta það sem vex villt en um þriðjungur er í einhvers konar ræktun.

Fjöldi framleiðenda en  flestir smáir.
Þegar kemur að örþörungum eða Spírulína er nær eingöngu um ræktun að ræða. Spírulína framleiðendur, eru 222 í álfunni, í 15 löndum og flestir eru  í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Spáni.

Örþörungaframleiðendur eru 74, flestir í Þýskaland, Spáni og Ítalíu. Samtals er slík framleiðsla í 16 löndum. Sumir eru bæði í örþörunga- og Spírulína ræktun, eða 33 fyrirtæki. Lang flest þessara fyrirtækja eru lítil eða á tilraunastigi, sérstaklega þegar kemur að framleiðslu örþörunga.

Algalíf á Íslandi er með allra stærstu örþörungafyrirtækjum Evrópu, framleiðir meira en 10% af öllum lífmassa úr örþörungum sem framleiddur er í álfunni. Þá virðist Algalíf líka vera langt á undan flestum öðrum í tækni, sérþekkingu, sölukerfi og stöðugleika í framleiðslu.

Miklir framtíðarmöguleikar í þörungaframleiðslu
Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhöfunda er mikil og björt tíð fram undan í ræktun og þörungavinnslu í Evrópu en mikilvægt á sama tíma að huga vel að umhverfislegum áskorunum, sérstaklega hvað varðar nýtingu á villtum þörungum. Aðeins fá fyrirtæki í örþörungaræktun hafa náð verulega góðum árangri varðandi stöðugleika og hagkvæmni og Algalíf á Íslandi er eitt þeirra.

Fyrirtækið framleiðir astaxanthín sem nýtt er sem fæðubótaefni og í ýmsa aðra framleiðslu eins og snyrtivörur. Þetta eina fyrirtæki framleiðir samkvæmt gögnum skýrslunnar meira en 10% af öllum örþörunga lífmassa sem framleiddur er í Evrópu.

Deila: