Ítarlegt viðtal við forstjóra Samherja í Markaðnum

231
Deila:

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er í ítarlegu viðtali í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag. Í viðtalinu fjallar Þorsteinn Már meðal annars um fyrirhugaða skráningu Síldarvinnslunnar á almennan hlutabréfamarkað, áform Samherja um uppbyggingu á landeldi í Helguvík og hvernig rannsóknir á svæðinu hafa gengið, breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi og vöxt laxeldisfyrirtækja hér á landi sem hann telur að verði á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í fyllingu tímans.

Í viðtalinu við Þorstein Má kemur fram að rannsóknir á fýsileika landeldis í Helguvík séu komnar á fullan skrið en greint var frá því nýlega að Samherji og Norðurál hefðu undirritað viljayfirlýsingu um kaup á lóð og fasteignum álframleiðandans við Helguvík.

Samherji Fiskeldi hefur lagt höfuðáherslu á landeldi en laxeldi í sjókvíum er í örum vexti á Íslandi. Þorsteinn Már segir að ekki séu meira en fjögur til fimm ár í það að þrjú af sex stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, mælt í veltu, verði laxeldisfyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru að stærstum hluta í eigu Norðmanna.

Þá ræðir Þorsteinn Már um mikinn uppgang Rússa í alþjóðlegum sjávarútvegi en mörg öflug rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki hafa rutt sér til rúms að undanförnu og hafa keypt skip af Íslendingum í nokkrum mæli.

Í viðtalinu er einnig umfjöllun um nýtt hátæknivinnsluhús Samherja á Dalvík, hvaða þýðingu fjárfestingin í húsinu hefur og hvað tæknin í húsinu gerir mögulegt en hún var þróuð í samstarfi Samherja við íslensk hátæknifyrirtæki.

Viðtalið við Þorstein Má í heild sinni má nálgast hér.

 

Deila: