Kaup BAADER á meirihluta Skagans 3X staðfest

113
Deila:

Á dögunum var gengið endanlega frá kaupum BAADER á meirihluta hlutafjár í Skaganum 3X. Upphaflega var greint frá kaupunum 29.október 2020. Með kaupunum hefst náið samstarf fyrirtækjanna við framleiðslu og markaðssetningu tækja til matvælavinnslu. Þar verður byggt á langri og heimsþekktri reynslu BAADER ásamt sérfræðiþekkingu Skagans 3X á sviði kæli-, frysti- og vinnslutækni.
Í fyrsta skrefi samstarfs fyrirtækjanna verður lögð áhersla á nýtt alþjóðlegt sölunet. Þar mun sölufólk
BAADER og Skagans 3X leiða saman krafta sína og þekkingu og verður sala tæknilausna fyrirtækjanna
samræmd með það að höfuðmarkmiði að viðhalda góðum tengslum fyrirtækjanna og viðskiptavina þeirra.
„Markmið okkar er að bjóða fyrsta flokks búnað og kerfislausnir á öllum helstu sviðum fiskiðnaðar sem byggja mun á yfir 100 ára gömlum og djúpum rótum þekkingar og reynslu okkar ágætu starfsmanna,“ segir Petra Baader forstjóri BAADER.
„Ég er hæstánægður með fyrirhugað samstarf fyrirtækjanna sem nú hefur verið innsiglað. Síðustu 40 árin höfum við ávallt lagt áherslu á nýsköpun og þróað hugvitsamlegar vörur fyrir iðnaðinn. Með sterkara alþjóðlegu söluneti getur starfsfólk Skagans 3X einbeitt sér betur að nýsköpun og fullnýtingu
framleiðslugetunnar á Íslandiׅ,“ segir Ingólfur Árnason forstjóri Skagans 3X.
„Með nánu samstarfi munum við ekki einungis efla getu okkar í vinnslu á öllum helstu fisktegundum heldur ekki síður tryggja betur hámarksafrakstur vinnslunnar því með undirkælingartækni Skagans 3X er hægt að vinna fisk með nákvæmari hætti á sama tíma og ferskleiki og gæði afurða eru tryggð“ segir Robert Focke, framkvæmdastjóri BAADER.
Samstarfi fyrirtækjanna er ætlað að styrkja stöðu þeirra á alþjóðavísu. Áframhaldandi vöxtur til framtíðar mun fyrst og fremst byggja á hugviti, þekkingu og reynslu starfsmanna ásamt nánum tengslum við viðskiptavini fyrirtækjanna.
Stjórn Skagans 3X skipa nú Jeffrey Davis forstjóri ISEA Partners, sem verður stjórnarformaður, Petra
Baader forstjóri BAADER, Robert Focke framkvæmdastjóri BAADER, Una Lovísa Ingólfsdóttir og Ingólfur Árnason forstjóri Skagans 3X.
Ráðgjöf Skagans 3X í kaupum á meirihluta í félaginu var veitt af Finnboga Baldvinssyni og Fjölni Finnbogasyni hjá FAB Consulting í Þýskalandi.

 

Deila: