Sóknarfæri í fiskeldi
Í nýjasta tölublaðs Sóknarfæris er fjallað um fiskeldi á Íslandi með áherslu á laxeldi í sjókvíum. Laxeldi á Íslandi er í hraðri uppbyggingu og í blaðinu er rætt við þá, sem standa í fararbroddi í fiskeldinu, þjónustufyrirtæki við fiskeldið og fleiri þætti. Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Sóknarfæris ritar meðal annars svo í leiðara blaðsins:
„Að þessu sinni er Sóknarfæri að stærstum hluta helgað fiskeldi á Íslandi. Engin atvinnugrein á Íslandi er í jafn örum vexti og fiskeldið þessi árin. Á hverju ári er slegið nýtt framleiðslumet og sumir þeirra sem best til þekkja segja að við séum enn á upphafsreitum uppbyggingar fiskeldisins.
Skiljanlega örlar á þeim áhyggjum að fiskeldið sé einhver bóla sem eigi eftir að springa. Við erum vissulega brennd eftir fjármálabóluna og ýmis önnur áföll sem dunið hafa yfir. Bent er á að við höfum áður séð upp- og niðursveiflu í fiskeldi. Vissulega rétt en hins vegar er margt með allt öðrum hætti nú. Í fyrsta lagi erum við örþjóð í heimsframleiðslunni á eldisfiski og vöxtur markaðarins er slíkur að jafnvel þótt að við eigum eftir að bæta tugum þúsunda við ársframleiðsluna þá mun það ekki hafa áhrif á markaðinn. Okkur fjölgar í heiminum og fleiri munnar þurfa prótein. Auk heldur er þetta vara sem margir vilja frekar velja hollustunnar vegna en margt annað á próteinsviðinu. Markaðurinn er því í stöðugum vexti.
Fiskeldi á Íslandi í dag er um margt mjög ólíkt því sem var á fyrri æviskeiðum þessarar atvinnugreinarinnar hér á landi. Að baki því er mikið og strangt regluverk, við höfum skilgreint eldissvæði á landinu og þar af leiðandi líka önnur svæði landsins þar sem við ætlum ekki að setja niður eldi. Þessu er mikilvægt að halda til haga. Þau svæði sem skilgreind eru fyrir sjóeldi á fiski eru metin út frá burðarþoli og umhverfisáhættu. Leiðin er því mjög löng og ströng áður en kemur til þess að eldiskvíar fari í sjó. Og þess utan þá eru strangar reglur sem gilda um eldið eftir að það er hafið í sjó, vöktun á umhverfinu við kvíarnar og þannig má áfram telja.“
Blaðið er gefið út af útgáfufélaginu Ritform. Því er dreift til fyrirtækja um allt land og það má sjá á heimasíðu þess á slóðinni https://ritform.is/wp-content/uploads/2021/02/soknarfaeri_SJOR_1_tbl_feb_2021_100.pdf