Steingrísfjörður fýsilegt veiðisvæði fyrir ígulker

202
Deila:

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu um leit að ígulkerum á Húnaflóa og við Grímsey. Niðurstaða skýrslunnar sýnir að Steingrímsfjörður er ákjósanlegasta veiðisvæðið í flóanum.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar í leit að ígulkeramiðum (skollakoppur/grænígull) í Hrútafirði, Bitrufirði, Miðfirði, Steingrímsfirði og við Grímsey í lok september 2020.    Við veiðarnar var notaður ígulkeraplógur. Áhöfn leiðangursins sá um skráningu á afla og myndatökur þegar undanþága frá viðveru veiðieftirlitsmanns var veitt. Myndefni sem safnað var af afla og öðru sem kom upp í togunum var yfirfarið af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar sem greindu og skráðu meðaflategundir sem sáust á myndunum. Botnlag var metið af skipstjóra og var víðast sandbotn.

Könnunin fór fram á 17 stöðvum þar sem dýpi var frá 6‐12 m. Skollakoppur fannst á 88% stöðva og voru ígulkerin yfirleitt í löndunarstærð og oft í töluverðu magni. Kóralþörungar greindust á 65% stöðva sem voru skoðaðar en í mismiklu magni. Sunnanveður Steingrímsfjörður var ákjósanlegasta veiðisvæðið þar var fjöldi skollakopps mikill og ígulkerin yfir löndunarstærð og lítið um kóralþörunga. Í Miðfirði var þokkalegur afli og kerin stór en þarna eru víða þekkt kóralþörungasvæði sem ber að varast. Í Hrútafirði og Bitrufirði var þéttleiki skollakopps frekar lítill og kerin yfirleitt smá en auk þess var mikið af kóralþörungi á þeim stöðvum sem skoðaðar voru. Greinóttir kóralþörungar mynda afar viðkvæmt og fjölbreytilegt búsvæði með hátt verndargildi. Þau eru talin mikilvæg fyrir ungviði nytjastofna og ætti því ekki að stunda plógveiðar á á slíkum svæðum.

Deila: