Skipulagsstofnun birtir álit á laxeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi

20
Deila:

Skipulagsstofnun hefur birt álit sitt á 10.000 tonna laxeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi. Stofnunin telur að helstu neikvæðu áhrif eldisins felist í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxfiskstofna vegna erfðablöndunar. Auk þess telur Skipulagsstofnun að eldið komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Djúpinu.

Í matsskýrslu kemur fram að Arnarlax áformar að byggja upp kynslóðaskipt eldi á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi með 10.000 tonna ársframleiðslu og 10.000 tonna heildarlífmassa. Gert er ráð fyrir að eldiskvíar verði staðsettar á þremur eldissvæðum, þ.e. við Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð. Eldissvæðum var valinn staður þar sem dýpi er almennt um 70-100 m og sjávarbotn liggur í hallandi hlíð svo lífrænn úrgangur dreifist betur undir kvíum. Við val á staðsetningu eldissvæða var einnig horft til þátta eins og veðráttu, ölduhæðar, siglingaleiða, veiðisvæða, netlaga og fjarlægðar á milli kvíaþyrpinga m.t.t sjúkdómavarna og þynningarsvæða. Við eldið verður notaður laxastofn sem heimilt er að ala hérlendis. Seiði verða alin í eldisstöð Arnarlax í Bæjarvík á Tálknafirði. Öll seiði verða bólusett fyrir sjósetningu og eingöngu verður notast við sjúkdómalaus seiði sem vottuð hafa verið af dýralækni. Bólusett er fyrir kýlaveiki, kýlaveikibróður, vetrarsárum og vibríuveiki. Gert er ráð fyrir að seiði verði 90-300 g að þyngd við útsetningu.

Fram kemur í matsskýrslu að eldið verður kynslóðaskipt sem felur í sér eldi einnar kynslóðar innan sama sjókvíaeldissvæðis. Áætlanir framkvæmdaraðila miðast við að hefja eldi á árinu 2021. Þá verða sett út um 1.780.000 seiði á eldissvæði við Eyjahlíð. Áætlað er að þau nái sláturstærð á 15 til 24 mánuðum. Seiði verða síðan sett út á eldissvæði við Óshlíð árið 2022, eldissvæði við Drangsvík árið 2023 o.s.frv. Öll eldissvæði verða hvíld í að minnsta kosti 90 daga milli kynslóða. Arnarlax mun samræma útsetningu seiða og hvíld eldissvæða í samráði við aðra eldisaðila á sama sjókvíaeldissvæði. Miðað er við að sláturstærð geti orðið allt að 6 kg og að þéttleiki í hverri kví fari ekki yfir 25 kg/m3 . Jafnframt er miðað við að hámarkslífmassi á hverjum tíma fari aldrei yfir 10.000 tonn. Framleiðsluáætlun gerir ráð fyrir að framleiðsla verði komin í tæp 10.000 tonn á þriðja ári eldisins (Tafla 1). Gert er ráð fyrir að allt að 200 tonn af laxi fari í slátrun vikulega þegar starfsemin verður komin í full afköst og laxi verði slátrað flesta virka daga ársins. Áætlað er að um 60-70 ársstörf skapist við eldi og slátrun eldisfisks.

Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrsla framkvæmdaraðila er aðgengileg hér .

Deila: