„Óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn kærða úrskurð“

124
Deila:

Lands­rétt­ur hef­ur ómerkt og vísað heim í hérað úr­sk­urði Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG sé skylt að veita embætti héraðssak­sókn­ara upp­lýs­ing­ar og af­henda gögn varðandi bók­hald og reikn­ings­skil allra fé­laga Sam­herja á ár­un­um 2011 til 2020. „Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar,“ segir í niðurstöðu Landsréttar. Þar segir einnig að meðferð málsins í héraði hafi verið svo áfátt að óhjákvæmilegt sé að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.

Í niðurstöðu úrskurðarins segir svo:

„Í greinargerð sóknaraðila eru rakin atriði vegna meðferðar kröfunnar fyrir héraðsdómi. Þar kemur fram að sækjandi málsins hafi sent kröfu sína til vakthafandi dómara sem viðhengi með tölvubréfi 3. desember 2020. Í niðurlagi kröfunnar hafi verið tekið fram að atvik málsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum yrðu nánar reifuð fyrir dóminum við fyrirtöku ef þess yrði óskað. Eftir sendingu kröfunnar hafi dómari haft samband við sækjandann í síma og spurst nánar fyrir um sakamálið og atriði varðandi kröfuna. Eins og þingbók málsins beri með sér hafi síðan farið svo að dómari tók kröfuna fyrir og kvað upp úrskurð án þess að sækjandinn væri kvaddur til fyrirtöku. Í greinargerð lætur sóknaraðili þess getið að hefði hann verið kvaddur til þinghalds hefðu rannsóknargögn verið látin liggja frammi með venjulegum hætti.

Samkvæmt þingbók héraðsdóms var krafan tekin fyrir „föstudaginn 3. desember 2020“, en upplýst hefur verið að hið rétta sé að þinghaldið hafi farið fram föstudaginn 4. þess mánaðar. Í samræmi við framangreinda lýsingu sóknaraðila ber þingbókin ekki með sér að sótt hafi verið þing af hálfu sóknaraðila og er tekið fram í niðurlagi bókunarinnar að úrskurðurinn sé kveðinn upp „að saksóknara fjarstöddum“. Í þingbók greinir auk þess að dómari hafi fallist á að taka málið fyrir án þess að „varnaraðili“ yrði boðaður til þinghalds, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.

Sú málsmeðferð héraðsdóms að boða ekki sóknaraðila til þinghalds var í andstöðu við fyrirmæli 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um að sá sem geri kröfu um rannsóknaraðgerð skuli boðaður til þinghalds, svo og ákvæði 3. mgr. greinarinnar á þá leið að mæti hann ekki í þinghaldið skuli fella málið niður. Það athugast að af þingbók og gögnum málsins er ekki að sjá að neytt hafi verið heimildar til þess að halda þinghaldið í fjarfundi, sbr. 2. mgr. ákvæðis X til bráðabirgða í lögum nr. 88/2008, sbr. 5. gr. laga nr. 32/2020 og 2. gr. laga nr. 121/2020.

Í úrskurði Landsréttar 28. janúar 2021 í máli nr. 42/2021 var fjallað um sama úrskurð héraðsdóms og hér er til umfjöllunar en þar var Samherja hf. og Samherja Holding ehf. talin bresta heimild til að kæra úrskurðinn til Landsréttar. Í því máli var upplýst, og hefur það verið staðfest að nýju hér fyrir rétti, að rannsóknargögn lágu ekki frammi við fyrirtöku málsins en samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 skulu kröfu fylgja þau gögn sem hún styðst við. Lágu því ekki fyrir héraðsdómi nauðsynleg gögn til að tekin yrði afstaða til kröfu sóknaraðila og hefði héraðsdómara verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar, í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt.

Samkvæmt framanrituðu var meðferð málsins í héraði svo áfátt að óhjákvæmilegt er að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.“

Deila: