Selja frjóvguð laxahrogn til fiskeldisstöðva víða um heim
„Við höfum framleiðslugetu upp á um 200 milljónir hrogna á ári. Í fyrra seldum við rúmlega 120 milljónir hrogna. Ef þetta er sett í samhengi þá fást svona 2,0 til 2,8 kíló af laxi úr hverju hrogni. Því getur þetta verið vel á þriðja hundrað þúsund tonn sem út úr þessu kemur frá okkur. Við þurfum svo að sjá hvað framundan er, hvað markaðurinn gerir, en það það er mikil eftirspurn eftir laxi.“ Þetta segir Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland, í samtali við Sóknarfæri.
„Ég held að það sé einhver 7% aukning í eftirspurn en framboðið er minna, framleiðsluaukningin er 3-4%. Það sem setur Ísland í lykilstöðu í þessu er að við erum með mjög góðan og heilbrigðan laxastofn, sem er alveg samkeppnisfær við aðra laxastofna. Í öðru lagi skiptir máli að frjóvguð hrogn þola flutning í fjóra sólarhringa við rétta kælingu. Þess vegna skiptir engu máli hvert hrognin eru flutt. Þau eiga alltaf að komast lifandi á leiðarenda. Þetta er því ekki vandamál fyrir okkur. Við höfum verið að flytja lifandi hrogn til Kína og Japan og fleiri fjarlægra landa,“ segir Jónas.
Viðtalið við Jónas má lesa í heild í nýjustu útgáfu Sóknarfæris, sem helgað er fiskeldi að þessu sinni. Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur nálgast á heimasíðu Ritforms á slóðinni https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_sjor_1_tbl_feb_2021_100?fr=sMzAyZTMxMDc1NjM