Laxinn kominn í annað sætið

308
Deila:

„Það er gömul saga og ný að þorskur í hafinu við Ísland er verðmætasta fisktegundin sem Íslendingar veiða, vinna og selja. Hann ber í raun höfuð og herðar yfir aðrar tegundir. Nokkuð mismunandi er hvaða tegundir hafa komið á eftir þorskinum, sé litið á einstök ár, en í heildina hefur loðnan skilað næstmestum útflutningsverðmætum af öllum fisktegundum síðasta áratuginn.  Loðnubrestur síðustu tvö árin hefur orðið til þess að sú röðun var ekki upp á teningnum undanfarin tvö ár.“ Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Nú er hins vegar svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Það hljóta að teljast nokkur tíðindi. Og er í raun vandséð annað, en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum og að hann muni þar með festa sig rækilega í sessi sem annar verðmætasti fiskurinn. Að sjálfsögðu geta aðrar fisktegundir bætt við sig, en þegar veitt er úr náttúrulegum stofnum er magnaukning þeirra miklu óvissari.

Ágætis byrjun
Óhætt er að segja að árið 2021 fari ágætlega af stað í fiskeldi. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 3,1 milljarði króna í janúar og er það stærsti janúar frá upphafi. Í krónum talið er aukningin á milli ára 22% en í erlendri mynt 10%, sem er ansi myndarleg aukning. Þar af nam útflutningsverðmæti eldislax um 2,1 milljarði króna, og er ljóst af þessum tölum að laxinn og eldisfiskur er áfram á fleygiferð við að auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins.“

 

Deila: