Mikil ásókn í grunnnám í fiskeldi

7
Deila:

Fisktækniskólinn í Grindavík hefur útskrifað 10 nemendur úr grunnámi í fiskeldi á Bíldudal. Þetta var hópur starfsmanna frá Arnarlaxi. Klemenz Sæmundsson, kennari við skólann segir að það sé mikil eftirspurn eftir þessu námi. Mikill vöxtur sé í fiskeldinu góð störf í boði fyrir fólk með þessa menntun. „Það eru svo eftir þessa útskrift 15 til 20 nemendur hjá okkur, aðallega í fjarnámi enda víðs vegar um landið,“ segir Klemenz.

Klemenz S;mundsson

Hann segir svo að þessu námi loknu geti fólk hvort sem er reynt fyrir sér í diplómanámi í fiskeldi á Hólum eða farið í annað háskólanám, þar sem þekkingin nýtist, eða farið beint til starfa hjá fiskeldisfyrirtækjunum. „Það er mikið af nemendum sem til okkar koma, sem hafa kannski  lítið framhaldsskólanám að baki og leita í þetta nám til að eiga betri möguleika á komast inn í nám á háskólastigi eins og til dæmis á Hólum. Við verðum líka mikið vör við það að hugur margra stefnir að því að auka þekkingu sína á fiskeldi og fá síðan vinnu þar. Loks eru aðrir sem eru með skýra stefnu á því hvert þeir vilja fara, sem sagt áfram í frekara nám,segir Klemenz

Auk náms í fiskeldi býður Fisktækniskólinn upp á tveggja ára grunnnám í Fisktækni og nám í haftengdri nýsköpun og netagerð (veiðarfæratækni).  Þá er boðið upp framhaldsnám í gæðastjórnun og Marelvinnslutækni.

„Við sáum aukna þörf fyrir grunnnám í fiskeldi. Nemendur voru farnir að spyrja eftir því. Við fórum af stað með þróun námsefnis og gerð námskrár 2018, í samvinnu við Arnarlax, Arctic fish, Fiskeldi Austfjarða, Matorku, Samherja og Stofnfisk ásamt Háskólanum á Hólum og hófum svo kennslu á Bíldudal haustið 2019.  Aukinn áhugi fylgir örum vexti í sjóskvíaeldi fyrir vestan og austan og svo uppbyggingu á landeldi á sunnanverðu landinu og svo eins fyrir norðan, við Kópasker.  Ég held að fólk sjái vaxandi atvinnutækifæri í fiskeldinu og finnist það spennandi. Það er líka mikill kostur fyrir fiskeldisfyrirtækin að fá fólk til vinnu, sem lokið hefur þessu grunnnámi í fiskeldi,“ segir Klemenz.

Fjórir markhópar

Að námi loknu eigu nemendur að geta sinnt margbreytilegum störfum í fiskeldisstöðvum  sjálfstætt og auk þess að vera fær um að meðhöndla sjávarfang og vörur unnar úr því á viðeigandi hátt. Námið á einnig að undirbúa nemendur fyrir frekara nám t.d. í fisktækni.

Markhóparnir eru:

  1. Fólk sem er nú þegar í vinnu í fiskeldi og vill mennta sig í greininni.
  2. Fiskeldisstöðvar sem vilja fá sérsniðna menntun fyrir starfsfólk sitt.
  3. b) Nemendur í framhaldsskólum, sem gætu tekið einstaka námshluta eða alla námskrána sem valfag.
  4. c) Fólk sem vill læra um fiskeldi vegna áhuga á t.d. lax og bleikjueldi.

Viðtalið birtist áður í nýjasta tölublaði Sóknarfæris. Blaðið er gefið út af Ritformi og er dreift til fyrirtækja um allt land. Það má einnig nálgast á heimasíðu Ritforms á slóðinni https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_sjor_1_tbl_feb_2021_100?fr=sMzAyZTMxMDc1NjM

 

 

Deila: