Vinnur með fullt af frábæru fólki

8
Deila:

Maður vikunnar er mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Hana langar til að ferðast um Vestfirði en þangað hefur hún aldrei komið. Golf, fjallgöngur og útivist eru áhugamál hennar.

Nafn:

Ragnheiður Ingibjörg Elmarsdóttir.

Hvaðan ertu?

Ég er frá Reyðarfirði.

Fjölskylduhagir?

Ég á kærasta og saman eigum við frábæran hóp af börnum.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem mannauðs- og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði hjá Loðnuvinnslunni 2018 en eins og flestir sem alast upp út á landi vann ég í fiski á unglingsárum.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er mjög gaman að fá innsýn inn í sjávarútveginn því það var geiri sem ég þekkti lítið. Verkefnin er alls konar og vinnuumhverfið fjölbreytt.

En það erfiðasta?

Það þarf að takast á við krefjandi verkefni inn á milli en ég vinn með fullt af frábæru fólki sem hjálpast að við að finna lausnir. Það getur t.d. verið erfitt að skipuleggja fræðslu og slíkt fyrir fjölbreyttan hóp og þá sérstaklega sjómenn sem vinna ekki frá níu til fimm.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Man ekki eftir neinu sérstöku en þegar ég byrjaði að vinna á skrifstofu Loðnuvinnslunnar var hefð fyrir því að hlusta á Óskastundina á Rás 1 á föstudögum. Þetta fannst mér frekar spes og lögin ekki alveg þau sem ég hlustaði á til að komast í helgarfíling en í dag er þátturinn alveg ómissandi. Nú dillum við okkur sama á föstudögum við ,,Blíðasti blær“ . Gerist ekki betra😊

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru svo margir sem eru eftirminnilegir og gaman að fá að kynnast ólíkum einstaklingum. Edin Zutic samstarfmaður minn er t.d. einn af þeim sem ég dáist að, hann er alltaf hress og kátur.

Hver eru áhugamál þín?

Ég verð að segja að golfið er í fyrsta sæti, er alveg komin með delluna! Annars hef ég gaman af fjallgöngu og útivist.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það fer bara eftir stemningu, steikti fiskurinn hennar mömmu, humar, naut eða gott pasta.

Hvert færir þú í draumfríið?

Klárlega til Vestfjarða en ég hef aldrei komið þangað en langar alveg ógurlega. Ætlaði í fyrra en veðurspáin var ekki góð þegar ég var í sumarfríi, vonandi kemst ég í sumar.  Það væri líka mjög gaman að fara erlendis í golfferð, það verður gert þegar ástandið í heiminum batnar😊

 

 

Deila: