Pönnusteiktur lax

25
Deila:

Þökk sé laxeldinu er nú hægt að fá ferskan gæðalax allt árið um kring og á viðráðanlegu verði. Lax er einstaklega hollur matur, ríkur af fjölómettuðum fitusýrum sem eru nauðsynlegar okkur öllum, á hvaða aldri sem er. Laxinn má matreiða á nánast óteljandi vegu eins og annan fisk og væri það góð regla að hafa lax í matinn að minnsta kosti einu sinni í mánuði eða oftar. Embætti landlæknis ráðleggur fólki að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku hverri.

Innihald:

4 laxabitar úr flaki, um 180g hver

Sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar

2 msk. extra virgin ólívuolía

1 dl. hvítvín

Safi úr 1 og ½ sítrónu

2 hvítlauksgeirar þunnt skornir

Rauðar piparflögur á hnífsoddi

2 msk. smjör

1 sítróna, sneidd

2 msk. smátt söxuð steinselja

Aðferðin:

Hitið olíuna á stórri pönnu. Kryddið laxinn með salti og pipar. Þegar olían er orðin snarpheit fer laxinn á pönnuna með holdhliðina niður og steikið í 5 til 6 mínútur, eða þar til fiskurinn er orðinn fallega gylltur. Snúið bitunum þá við og bætið hvítvíninu, safa úr einni sítrónu, hvítlauk og piparflögunum út í. Látið þetta krauma og ausið safanum af og til yfir laxinn. Þegar hann er fulleldaður er hann færður upp á fat og haldið heitum. Bætið þá smjörinu og safa úr hálfri sítrónu út í og hrærið saman. Látið malla í um tvær mínútur, eða þar til sósan fer að þykkna.

Færið laxinn upp á diska, jafnið sósunni yfir þá og leggið sítrónusneiðar á þá og stráið steinseljunni yfir.  Berið fram með soðnum kartöflum og fersku salati að eigin vali.

 

Deila: