Höfrungur III AK með mestan kvóta í „Rússasjó“

196
Deila:

Fiskistofa hefur úthlutað þorskaflaheimildum til íslenskra togara innan lögsögu Rússlands í Barentshafi. Heildarkvóti er rétt rúm 4.000 tonn og fá 10 togarar úthlutun. Í fyrra var úthlutaður kvóti 3.366 tonn, en útgerðirnar leigðu 2.322 tonn til viðbótar og var því heimilt að veiða 5.688 tonn þá. Ekki liggur fyrir hvort eða hve mikið útgerðirnar leigja til sín á þessu ári.

Í fyrra sóttu fimm skip aflann í Rússasjó og var Blængur NK þeirra aflahæstur með um 1.500 tonn. Hin skipin voru með í kringum þúsund tonn hvert. Það voru Sólberg ÓF, Örfirisey RE, Vigri RE og Arnar HU. Ljóst er að í ár verða aflaheimildir færðar á milli skipa eins og í fyrra. Mesta úthlutun nú hefur Höfrungur III AK, 971 tonn af þorski. Guðmundur í Nesi RE er með 683 tonn og Sólberg ÓF með 669 tonn.

Heimildir til þorskveiða innan lögsögu Noregs í ár eru 3.423 tonn. Mestan kvóta þar eftir millifærslur hafa Sólberg ÓF, 1.355 tonn og Örfirisey RE .1.189 tonn. Samkvæmt millifærslunum má gera ráð fyrir að aðeins fjögur skip sæki í þennan kvóta í ár. Þau eru öll að veiðum þar núna. Sólberg og Örfirisey eru frystitogarar en ísfisktogararnir Kaldbakur og Björgúlfur eru þar líka að afla hráefnis fyrir fyrir fiskvinnslur Samherja við Eyjafjörð.

Deila: