Lækkandi verð á norskum sjávarafurðum

19
Deila:

Norðmenn fluttu sjávarafurðir utan að verðmæti 131 milljarður íslenskra króna í febrúar. Það er samdráttur um 5%, eða 7,2 milljarða króna. Verð á flestum tegundum hefur lækkað miðað við sama tíma í fyrra.
Útflutningsráð sjávarafurða í Noregi skýrir lækkun með áhrifum af Covid-19 faraldrinum, en bendir líka á að febrúar í fyrra hafi verið sögulegur metmánuður. Mest af fiskinum fór til Póllands, Danmerkur og Bandaríkjanna.
Laxinn skiptir mestu máli í þessum tölum og nú fóru utan 96.600 tonn af eldislaxi að verðmæti 81 milljarður íslenskra króna. Magnið jókst um 20%, en verðmætið féll um 5%.

11.000 tonn af ferskum þorski fóru utan í febrúar að verðmæti 6,2 milljarðar íslenskra króna. Það var 25% aukning í magni, en verðmæti útflutningsins hækkaði aðeins um 2%. Mest af ferska þorskinum fór til Danmerkur, Póllands og Spánar.

Útflutningur á frystum þorski  nam 6.700 tonnum að verðmæti 3,7 milljarðar króna. Samdráttur í magni var 19% og verðmætið féll um 34%. Mest af frysta þorskinum fór til Bretlands, Kína og Litháen.

Svipaða sögu er að segja úr saltfiskinum. Magnið í þurrkuðum flöttum fiski féll um 8% og verðmætið um 32%. Í blautverkaða saltfiskinum féll magnið um 7% og verðmætið um 27%. Útflutningur á skreið féll um 40% í magni og 48% í verðmæti.

Norðmönnum gekk vel að selja loðnu í febrúar. Þeir voru með kvóta upp á 42.000 tonn við Íslands og veiddist hann allur í fyrrihluta febrúar. Þeir náðu að flytja út 6.000 tonn af frystri loðnu að verðmæti 1,6 milljarðar króna og fór mest af henni til Kína, Japans og Úkraínu. Meðalverð á kíló var í hæstu hæðum eða 270 krónur íslenskar á hvert kíló.

Deila: