Rosalega flott skip

99
Deila:

Nýi Börkur, sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku, fór í prufutúr sl. fimmtudag. Þeir Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri og Leifur Þormóðsson stýrimaður fóru með í túrinn og einnig Karl Jóhann Birgisson og Hörður Erlendsson vélstjóri sem hafa verið úti í Skagen og fylgst með smíði skipsins fyrir hönd Síldarvinnslunnar. Að sögn Grétars gekk prufutúrinn afskaplega vel í alla staði. „Það voru allir í skýjunum. Þetta er rosalega flott skip og það besta sem við höfum séð. Öll vinnubrögð við smíðina eru frábær og ekkert til sparað. Það er afar gott að vinna með Dönunum og Karl Jóhann og Hörður gegna mikilvægu hlutverki við smíðina og eru í reglubundnu sambandi við okkur heima,“ segir Grétar í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri tók undir með Grétari. „Ég held að þessi skip, Börkur og systurskipið Vilhelm Þorsteinsson, séu flottustu skip sem komið hafa til Íslands. Öll smíði á þeim er einstaklega vönduð og þau eru hlaðin búnaði í ríkari mæli en menn hafa kynnst. Í prufutúrnum voru aðalvélarnar tvær álagsprófaðar og meðal annars dælt sjó í allar lestar og í kælikerfi. Um borð voru 28 manns og hver og einn hafði sínu hlutverki að gegna. Skipið fór í 15,5 mílur á annarri vélinni og í 18,8 á báðum. Þarna er um að ræða yfir 9000 hestöfl og krafturinn er ótrúlegur. Það tók til dæmis einungis eina mínútu og átta sekúndur fyrir skipið að fara úr 5 mílum í 15.

Við njótum góðs af samvinnu við Samherjamenn en skip þeirra, Vilhelm Þorsteinsson, verður tilbúið á undan Berki. Mér skilst að Vilhelm verði sennilega afhentur í kringum 20. mars en Börkur gæti verið tilbúinn í lok apríl eða byrjun maí. Þessi skipasmíðastöð er fyrirmyndarfyrirtæki og ef þarf að breyta einhverju eða bæta við þá er það ekkert mál. Skipið virkar alveg svakalega stórt. Það er 90,2 metrar að lengd og 16,7 metrar að breidd. Lestarrýmið er yfir 3.500 rúmmetrar þannig að það getur borið um 3.400 tonn að landi. Þetta er svo sannarlega Stóri-Börkur. Vonandi náum við einum kolmunnatúr fyrir sjómannadag til þess að læra á bátinn. Þetta er virkilega spennandi allt saman,“ segir Hjörvar.

Karl Jóhann Birgisson hefur fylgst með framkvæmdum við Börk í Skagen síðan í byrjun októbermánaðar og hafa vélstjórarnir, Jóhann Pétur Gíslason og Hörður Erlendsson, dvalið þar með honum til skiptis. Karl Jóhann segir að skipulega sé unnið að öllum verkum í skipinu. „Nú á til dæmis að fara að byrja að mála skipið að innan og í það verk fer 46 manna hópur. Gert er ráð fyrir að málningarvinnan taki sex vikur. Það er vel að öllum verkum staðið og auðvitað skiptir máli fyrir skipasmíðastöðina að skipið klárist sem fyrst. Eins og ég hef áður sagt njótum við þess að framkvæmdir við systurskipið Vilhelm Þorsteinsson eru á undan þannig að ekkert kemur á óvart við framkvæmdir í Berki. Ég geri ráð fyrir að verða hér í Skagen allt til enda og mínu verki hér mun ljúka við afhendingu skipsins,“ segir Karl Jóhann.

 

 

Deila: