„Íslendingar í Namibíu sagðir í Færeyjum“

20
Deila:

Færeyskur skattasérfræðingur telur Samherja hafa brotið bæði færeysk og namibísk lög með því að borga Íslendingum sem störfuðu í Namibíu laun í Færeyjum og skrá þá ranglega í áhöfn færeyskra flutningaskipa samkvæmt frétt á ruv.is. Fjallað var um tengsl Samherjamálsins við Færeyjar í færeyska Sjónvarpinu í gærkvöldi. Frétt RUV um málið fer hér á eftir.

Tindholmur var eitt þriggja félaga sem Samherjafélagið Esja shipping á Kýpur stofnaði árið 2011 í Færeyjum. Hin tvö hétu Scombrus og Harengus, en tvö samnefnd flutningaskip voru skráð í Færeyjum – enda óvíða hagstæðara að skrá og reka flutningaskip en þar. Ein meginfríðindin snúa að skattlagningu, en útgerðum býðst til dæmis 100% endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.

Nokkuð sem Samherji er sagður hafa misnotað með því að skrá íslenska sjómenn á færeysku fraktskipin, á sama tíma og þeir voru raunverulega við störf á fiskiskipum félagsins við strendur Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap af þeim sökum.

Jóhannes Stefánsson, fyrrum framkvæmdastjóri Namibíu-útgerðar Samherja segir, í viðtali við færeyska Sjónvarpið, þetta ástæðu þess að hálf milljón bandaríkjadollara var greidd frá útgerðum Samherja í Namibíu og til færeyska félagsins Tindholms, frá  árslokum 2016 til ársloka 2017.

Í ársbyrjun 2016 gengu í gildi lög í Namibíu sem skylduðu erlendar áhafnir fiskiskipa til að greiða skatta og skyldur í landinu.

Tölvupóstsamskipti lykilfólks innan Samherja sýna að talsverð vinna var lögð í að bregðast við lagabreytingunni og áliti endurskoðanda sama efnis í ársbyrjun 2016, ellegar yrði Samherji í „djúpum skít“ svo gripið sé til orðfæris Aðalsteins Helgasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja.

Arna McClure lögmaður Samherja brást við þessum áhyggjum með því að segjast ætla að hafa samband við tvo stjórnarmenn færeyska félagsins Tindholms, sem stuttu síðar fór að fá reglubundnar greiðslur frá Namibíu.

Kveikur hefur í dag rætt við Íslending úr áhöfn eins Samherjatogaranna sem gerðir voru út í Namibíu. Gögn sýna að hann fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu en hann kveðst einnig hafa verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja – fyrirkomulag sem hann segir fyrirtækið hafa sett upp og fullyrt að stæðist öll lög.

Eyðfinnur Jacobsen, sérfræðingur í færeyskum skattarétti, segir í samtali við færeyska sjónvarpið að slíkt sé augljóslega brot á færeyskum lögum, þó namibíska ríkið sitji uppi með tapið.

„Brotið er framið í Færeyjum; í færeysku félagi gegn færeyskum lögum. En áhrifin af brotinu eru ekki í Færeyjum heldur í Namibíu,“ segir Eyðfinnur í viðtalinu.

Fréttamenn færeyska sjónvarpsins gerðu ítrekað tilraunir til að óska eftir svörum frá stjórnendum og stjórnarmönnum Tindhólms undanfarnar vikur. Einn Íslendingur situr í stjórn félagsins. Egill Helgi Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu.

Egill Helgi er einn þriggja starfsmanna Samherja sem sæta ákæru vegna mútubrotaog fjársvika í Namibíu, auk þess sem hann hefur réttarstöðu grunaðs í rannsókn Samherjamálsins á Íslandi.

Fréttamenn Kringvarpsins náði í Egil í síma á dögunum en hann kvaðst vera í slæmu símasambandi og ekki geta talað. Hann brást ekki við skilaboðum sem honum voru send í kjölfarið eða spurningum um málið.

Framkvæmdastjóri Tindhólms, var skráður Jónas Sigmarsson, færeyingur sem starfaði að sögn við útgerð skipanna Harengus og Scombrus. Jónas var líka skráður þriðji maður í stjórn Tindholms. Jónas kvaðst hafa hætt störfum fyrir félagið enda var því slitið árið 2020.

Hann neitaði að svara nokkrum spurningum um starfsemi þess og vísaði á stjórnarformanninn, Björn á Heygum.

Björn er fyrrum þingmaður í Færeyjum, hæstaréttarlögmaður og þekktur álitsgjafi, sem öðlaðist landsfrægð í Færeyjum eftir þáttöku sína í samfélagsumræðu í kjölfar bankahrunsins færeyska á níunda áratugnum. Björn er jafnframt einn þriggja höfunda „Stjórnskipunarinnar“ sem samin var um svipað leyti og litið er á sem nokkurs lags stjórnarskrárígildi í Færeyjum.

Björn var stjórnarformaður Tindholms þar til félaginu var slitið árið 2020 en hann hefur setið í stjórnum fjölda Samherjafélaga í Færeyjum, undanfarna þrjá áratugi, auk þess að sinna lögmannsstörfum fyrir Samherja á Eyjunum. Hann hefur meðal annars setið í stjórn útgerðarinnar Framherja, sem Samherji á ásamt Anfinn Olsen og fjölskyldu hans. Framherji er ein stærsta útgerð Færeyja.

Í viðtali við Jan Lamhauge, fréttamann Kringvarpsins, virtist Björn þó litla eða enga vitneskju hafa um starfsemi félagsins Tindhólms og taldi sig jafnvel hafa verið blekktan af eigendum og starfsmönnum Samherja. Hann viðurkenndi að hafa lítið sinnt skyldum sínum sem stjórnarformaður og æðsta vald í málefnum félagsins Tindhólms. Afskipti hans af því væru í raun bundinn við einn aðalfund í félaginu árlega.

„Þetta kemur á óvart, það sem þú ert að segja mér. Og ég hef enga vitneskju um þetta,“ segir Björn í viðtali við færeyska sjónvarpið.

Hefur þú þá verið blekktur?

„Já þú gætir sagt það. Af því að stjórnin á að vera upplýst um hvað er að gerast í félaginu. Ef eitthvað ólöglegt átti sér stað, þá ætti einhver að hafa sagt mér það. En enginn hefur gert það. En þegar eitthvað þolir ekki dagsljósið, getur maður kannski ekki búist við því að einhver upplýsi mann um það,“ segir hann.

„Ég geri ráð fyrir að bæði framkvæmdastjórinn og eigandinn viti þetta, hvað sé í gangi.“

 

 

 

Deila: