Loðnan mikill lottóvinningur fyrir þjóðarbúið

12
Deila:

Núna er áætlað að loðnuvertíðin skili yfir tuttugu milljarða króna útflutningsverðmætum. Þetta kom fram í viðtali við Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, en þangað var Börkur NK í kvöld á leið með síðasta loðnufarm Austfjarða á þessari vertíð, 1.900 tonna farm. Þá virðist einungis Ísfélag Vestmannaeyja eiga eftir um þúsund tonn óveidd af sínum kvóta.

Þegar núgildandi loðnukvóti lá fyrir var því spáð að vertíðin gæti skilað ríflega tíu milljarða króna gjaldeyristekjum. Reyndin virðist ætla að verða gott betur en það.

„Ég giska á að þetta sé svona 25 milljarða vertíð,“ sagði Gunnþór í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 úr Neskaupstað.

„Ég held að við hefðum ekki getað trúað því fyrir einhverjum misserum síðan að ná þessum verðmætum út úr loðnunni eins og við erum að gera núna.“

-Er þetta bara eins og lottóvinningur fyrir þjóðarbúið?

„Já, ég held að þetta sé bara nokkuð stór lottóvinningur fyrir þjóðarbúið og okkur öll,“ svarar Gunnþór.

Gunnþór Ingvason metur að loðnuvertíðin geti skilað allt að 15 millj0rðum króna í útflutningsverðmætum. Ljósmynd Einar Árnason

Í fréttum Stöðvar 2 voru einnig sýndar myndir frá hrognavinnslu Síldarvinnslunnar, sem er langverðmætasta afurðin og tekinn púlsinn á stemmningunni meðal starfsfólksins.

„Konan segir að ég verði eins og lítið barn þegar loðnan er að koma. Þetta er svona spenningur. Þetta er ólýsanlegt. Bæði út á sjó og í landi, þá er þetta eitthvað sem er bara erfitt að lýsa. Þetta er bara spenna. Þetta er ofboðslega skemmtilegt,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá SVN.

 

 

Deila: