Gekk vel að veiða ufsa

201
Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til löndunar í Reykjavík í hádeginu á miðvikudag. Að sögn skipstjórans, Friðleifs Einarssonar, var hann aðallega að veiðum fyrir sunnan Reykjanes í þessum túr sem segja má að einkennst hafi af flótta undan öðrum fisktegundum en þeim sem má veiða.

,,Ufsi er sú tegund sem við megum sækja nokkuð frjálst í og það hefur gengið nokkuð vel síðasta hálfa mánuðinn að finna og veiða ufsa. Aðrar tegundir eru vandamál og þær eru stíft skammtaðar,” segir Leifur og hann segir því ekki vandann vera að það skorti fisk. Þvert á móti. Ef eitthvað sé þá sé of mikið af fiski miðað við aflaheimildir.

,,Það er t.d. búin að vera mjög góð þorskveiði í Jökuldjúpinu að undanförnu og maður verður meira við það en áður að þorskur sé að ganga á vertíðarsvæðið sunnan Reykjaness. Gullkarfinn er bókstaflega úti um allt og það má fyrst og fremst segja að vandinn felist í að veiða ekki of mikið. Heilt yfir erum við með um 150 tonn af fiski í veiðiferðinni og það verður að teljast alveg þokalegt í ljósi aðstæðna,” segir Friðleifur Einarsson í samtali á heimasíðu Brims.

Deila: