Grindvísk gæðaýsa

4
Deila:

Jæja, nú eru sjómenn að kvarta yfir því að alltof mikið veiðist af ýsu. Þeir hafi ekki nægar veiðiheimildir fyrir henni. Við neytendur höfum nokkra samúð með þeim, en fögnum miklu framboði á þessum einstaka gæðafiski. Þess vegna bjóðum við nú upp á uppskrift að grindvískri gæðaýsu með karrý, grænmeti og hrísgrjónum. Einfaldur og hollur réttur.

Innihald:

800g fersk gæðaýsa, roðflett og beinhreinsuð, í fjórum eða átta jafnstórum bitum
3 miðlungs gulrætur, sneiddar í þunnar sneiðar
1 blaðlaukur, þverskorinn
4 vorlaukar, þverskornir
olía til steikingar
sítrónupipar
sellerísalt
karrý, magn eftir smekk
½ teningur grænmetiskraftur
4 msk. hveiti
1 pakki af karrýsósu
1 dl. rjómi

Aðferð:

Hitið matarolíu á góðri pönnu og látið grænmetið mýkjast í henni. Kryddið lítillega með sellerísalti og karrý. Takið þá grænmetið af pönnunni. Blandið saman hveiti og karrýdufti og veltið fiskbitunum upp úr blöndunni og steikið á góðum hita á sömu pönnu og grænmetið. Þegar bitarnir eru orðnir gullnir er þeim snúið við og og hitinn lækkaður lítillega. Þá er grænmetið sett út á pönnuna og látið hitna á ný með fiskinum.
Sósan:

Við notum pakka af karrýsósu frá Toro. Setjið minna af vatni en segir til um og notið rjóma í staðinn til að mýkja sósuna. Bætið grænmetiskrafti og karrý út í eftir smekk.
Grjónin:

Hægt er að nota fjölmargar gerðir af grjónum; til að hita í örbylgjuofni, sjóða í poka eða sjóða á gamla góða mátann. Ef síðastnefnda leiðin er farin er best að skola grjónin vel og setja í pott með hæfilega miklu af köldu vatni. Stilla á góðan hita og þegar suðan er komin upp, er slökkt á hitanum og potturinn látinn standa á hellunni. Þannig verða grjónin hæfilega soðin eftir 10 til 15 mínútur.

Berið fiskinn fram í pönnunni, grjónin í skál og sósuna í fallegum potti eða skál. Njótið matarins með kældu hvítvíni, ef það hentar.

 

 

Deila: