Mikið um tegundasvindl fiskafurða á heimsvísu

14
Deila:

Tegundasvindl fiskafurða er viðvarandi vandamál á heimsvísu. Samkvæmt 44 ólíkum rannsóknum hafa um 36% af þeim 9000 tegundum sjávarafurða sem til rannsóknar voru hjá veitingastöðum, fisksölum og í verslunum víðs vegar um heim verið seld undir fölsku flaggi. Mest var um að viðskiptavinir fengju annað en þeir pöntuðu á veitingastöðum á Íslandi, Spáni og Finnlandi. „Mér er það mjög til efs að þetta sé vandamál innanlands,“ segir Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og fiskútflytjenda í samtali á ruv.is.

Dæmi eru um að rækjubollur seldar í Singapúr innihaldi oft svínakjöt en ekki snefil af rækju. Þá voru dæmi um japansdiskur væri seldur sem jakobsdiskur, sem er dýrari tegund af hörpuskel.

Þá var fiskur seldur sem hitabeltistegundinni Lutjanidae, einnig kallaður snapper, af annarri tegund í 70% tilvika í Bretlandi.

Rannsóknirnar eru eðlisólíkar og byggja á mismunandi aðferðum. Frá þessu er greint á vef breska blaðsins Guardian. Guardian greinir frá því að í einni rannsókninni sé Ísland meðal efstu fjögurra landa þar sem oftast komi fyrir að ranglega sé greint frá sjávarfangi á matseðli veitingahúsa eða í 40 – 50% tilvika. Þeim vafasama heiðri deili Ísland með Spáni, Finnlandi og Þýskalandi.

Að hluta komið til vegna innfluttra sjávarafurða

Þar er vísað í grein frá 2018 sem meðal annars sérfræðingar MATÍS gerðu ásamt fjölda erlendra sérfræðinga þar sem tekin voru DNA sýni úr sjávarafurðum á 180 veitingastöðum í 23 löndum. Rannsóknin var hluti af evrópska samstarfsverkefninu Food Integrity.

Niðurstaða þeirrar rannsóknar sýndi að úr þeim 56 DNA sýnum sem tekin voru úr réttum frá 22 íslenskum veitingastöðum reyndist í fjórðungi tilvika um ranglega merktan fisk eða annað sjávarfang að ræða miðað við það sem stóð á matseðli. Hluti af þeim sjávarafurðum sem var greindur hérlendis reyndist þar vera innfluttur fiskur, meðal annars túnfiskur, en einnig var dæmi um að keila væri seld sem skötuselur.

„Það hefur valdið okkur gríðarlegum áhyggjum að fiskur sé seldur sem alíslenskur sem ekki er raunverulega íslenskur,“ segir Arnar.

Þekkja ekki hvar fiskurinn endar í virðiskeðjunni

Hann segir gámaútflutning á óunnum fiski valda þeim áhyggjum. Rúmlega 50 þúsund tonn af óunnum fiski voru flutt út í fyrra. „Það er í sívaxandi mæli að valda okkur áhyggjum því við þekkjum ekki hvar í framleiðslukeðjunni hann endar og það eru miklar áhyggjur meðal manna í þá veru að þetta geti gerst.“

„Við Íslendingar sem framleiðsluland höfum ekki lengur stjórn á merkingu og framsetningu fisksins og kannski er þetta til marks um það að við séum að missa stjórn á þessum útflutningi,“ segir Arnar í samtalinu á ruv.is.

Sjá nánar eftirfarandi fréttir af Auðlindinni í janúar 2019:

https://audlindin.is/tegundasvik-algeng-vidskiptum-med-sjavarafurdir/

https://audlindin.is/meint-fisktegundasvindl-kaert-til-logreglu/

 

 

Deila: