Faraldurinn eykur fiskkaup á Netinu

30
Deila:

Sala afurða úr fiskveiðum og fiskeldi hefur tekið töluverðum stakkaskiptum eftir að Kóróna-faraldurinn braust út. Þar veldur mestu lokun veitingageirans, það er hótela, veitingahúsa og mötuneyta. Salan hefur því færst yfir í stórmarkaðina í miklum mæli, en jafnframt hefur sala þessara afurða flust yfir á Internetið. Ný rannsókn frá Eumofa, markaðsrannsóknastofu ESB fyrir afurðir úr fiskeldi og fiskveiðum,  sýnir að sala fiskafurða á Netinu fari sífellt vaxandi og fylgi því margir kostir. Meðal annars fækkun milliliða, lækkun kostnaðar og í sumum tilvikum meiri gæði og áreiðanleiki.

Sérstakur kafli í rannsókninni fjallar um áhrif Covid-19 á þessi viðskipti. Með lokunum veitingageirans og minni eftirspurn eftir ferskum fiski í smásölu, hafi mikið breyst í sjávarútvegi og fiskeldi. Margir framleiðendur og fiskimenn hafi þurft að finna nýjar söluleiðir fyrir fiskinn til að afla sér nægilegra tekna.

Á myndinni má sjá hlutfall þeirra sem nýttu sér Netið til hverkyns innkaupa á árinu 2019 í löndum ESB og EES.

Þetta hefur leitt til mikils vaxtar á beinum viðskiptum á sjávarútvegssvæðum innan ESB og EES og afhendingu afurðanna beint til kaupenda. Margvíslegar hindranir í viðskiptum með fiskafurðir hafa komið upp í kjölfar faraldursins sem leitt hafa af sér nýjar leiðir. Það má nefna vöxt í sölu afurða á netinu til að taka með sér heim, bæði tilbúnir réttir eins og fiskur og franskar og hráefni tilbúið til matreiðslu. Einnig hefur verið komið upp sjálfsölum og heimsendingar hafa aukist verulega. Þá hafa til dæmis sjómenn á Kanaríeyjum boðið fisk til sölu á samfélagsmiðlum.
Rannsókn Rabobank sýnir að sala á netinu og heimsending eða sótt á staðinn hafi aukist um alla Evrópu. Aukningin ferskfisksölu sé um 20% síðan fyrir ári. Í Bandaríkjunum hefur sala af þessu tagi tvöfaldast.

Tað er þó talið að margir sem hafi nýtt sér Netið í fyrsta sinn til kaupa á fiski, muni hverfa frá þeirri leið, þegar faraldurinn verði genginn yfir og flest fari í sama horf og áður. Aðrir muni þó halda áfram að versla á netinu og allar líkur eru á því að viðskipti með afurðir úr fiskveiðum og fiskeldi á Netinu muni halda áfram að aukast og faraldurinn hafi í raun flýtt fyrir þeirri þróun.

 

Deila: