Leggja til arð upp á 1,2 krónur á hlut

155
Deila:

Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 25. mars 2021 á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík.

Gætt verður að gildandi fyrirvörum stjórnvalda um fjöldatakmarkanir, nálægðarmörk og sóttvarnir en jafnframt verður boðið uppá á fullgilda rafræna þátttöku á fundinum í gegnum Lumi AGM án þess að hluthafar séu viðstaddir á fundarstað. Atkvæðagreiðsla á fundinum mun alfarið fara fram með rafrænum hætti í gegnum Lumi AGM.

Ekki eru breytingar á áður birtri dagskrá og tillögum.

Í tillögu um greiðslu arðs, segir meðal annars svo: „Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2021 vegna rekstrarársins 2020 verði 1,2 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 2.305 millj. kr. (um 14,8 millj. evra á lokagengi ársins 2020), eða 2,4% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2020. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2021. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 25. mars 2021 og arðleysisdagur því 26. mars 2021. Arðsréttindadagur er 29. mars 2021. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.“

Hluthafar eða umboðsmenn hluthafa sem hafa hug á því að sækja fundinn, hvort sem er rafrænt eða á staðnum, eru beðnir um að skrá sig tímanlega á vefsíðunni www.smartagm.com og eigi síðar en kl. 17.00 þann 24. mars, eða degi fyrir fundardag. Með innskráningu þarf að fylgja mynd af skilríkjum og umboð, ef við á.

Fundurinn fer fram á íslensku og hefst klukkan 17:00.

Dagskrá og tillögur stjórnar ásamt nánari upplýsingum má finna í meðfylgjandi viðhengi.

 

 

Deila: