Fersk afurð tilbúin til afhendingar innan við klukkustund frá löndun

18
Deila:

Í nýju kynningarmyndbandi fyrir vinnslu á ferskum fiski í hátæknivinnsluhúsi Samherja á Dalvík er farið ítarlega yfir allt vinnsluferlið frá því að fisknum er landað beint úr skipum Samherja í vinnsluhúsið og þangað til ferskum afurðum er pakkað eftir kröfum viðskiptavina og þær tilbúnar til afhendingar.

Í vinnsluhúsinu er megináhersla lögð á vinnslu þorsks og ýsu og er vinnslan mjög sérhæfð þar sem allar afurðir eru ferskar eða lausfrystar. Framleiddir eru ferskir, sérskornir bitar af ýmsum stærðum og gerðum, eftir þörfum kaupenda hverju sinni.

Snyrtilínur í húsi Samherja

Í myndbandinu, sem fjallar eingöngu um vinnslu á ferskum fiski, kemur fram að notkun róbótatækni í húsinu tryggi stöðugt flæði í gegnum allt framleiðsluferlið. Þá er þar hægt að sjá skurð á ferskum bolfiski með nýrri tækni Völku en með henni næst mjög mikill sveigjanleiki og nákvæmni í bitaskurði. Þessi tækni gerir Samherja kleift að mæta ýtrustu kröfum viðskiptavina sinna.

Skurðarvélin frá Völku.

Nýjar tæknilausnir og aukin sjálfvirkni í vinnsluhúsinu á Dalvík styttir tímann við framleiðsluferlið og geta ferskar afurðir verið tilbúnar til afhendingar innan við 60 mínútum frá því að fiskinum var landað.

Stöflunarróbóti frá Samey að störfum.

Í vinnsluhúsinu, sem var tekið í notkun hinn 14. ágúst í á síðasta ári, eru vinnslulínur frá Völku, flökunarvélar frá Vélfagi, hausarar frá Baader Ísland, lausfrystar frá Frost, stöflunarróbótar og róbót sem losar kör frá Samey. Þá er þar að auki búnaður frá Skaganum 3X, Marel, Raftákn, Slippnum og fleiri íslenskum fyrirtækjum. Tækin í húsinu og sá hugbúnaður sem þar er notaður er afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu þau. Í reynd er um að ræða nýjar, sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi.

Hægt er að nálgast myndbandið hér.

 

Deila: