Hverri áskorun mætt með bjartsýni

0
Deila:

Aðalfundur Marel hf. var haldinn rafrænt þann 17. mars 2021 kl. 16:00. Allar tillögur stjórnar til aðalfundar voru samþykktar. Tillögurnar eru aðgengilegar á vefsíðu fundarins: marel.com/agm. Nánari upplýsingar um atkvæðagreiðslu á fundinum er að finna í viðhengi.

Fráfarandi stjórnarformaður félagsins, Ásthildur Otharsdóttir, ávarpaði fundinn fyrir hönd stjórnar og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, gaf skýrslu um fjárhagsárið 2020 og veitti innsýn í starfsemi félagsins.

Úr skýrslu fráfarandi stjórnarformanns Marel, Ásthildar Otharsdóttur:

„Eins og öllum er ljóst var árið 2020 mjög sérstakt. Stjórn Marel er sannarlega stolt af því hvernig Marel teymið um heim allan hefur tekist á við þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru, þar sem við gegnum mikilvægu hlutverki í matvælakeðjunni. Árangur ársins ber vitni um skýran tilgang og gildi Marel sem og seiglu viðskiptamódels okkar.

Ein af stærstu áskorunum okkar tíma er að framleiða sjálfbær og örugg matvæli fyrir vaxandi mannfjölda heimsins, innan þeirra marka sem jörðin setur okkur. Til þess að lágmarka áhrif loftslagsbreytinga þurfa meiriháttar umbætur að eiga sér stað varðandi hvernig við yrkjum jörðina, vinnum matvæli, hvað við borðum og hversu miklu við sóum. Mikilvægasta framlag Marel til sjálfbærni í heiminum er fólgið í nýsköpun. Nýsköpun til áhrifa miðar að því að lágmarka sóun og umhverfisáhrif matvælaframleiðslu, án þess að það bitni á gæðum vörunnar.

Við sjáum fram á vaxandi eftirspurn sem drifin er áfram af aukinni þörf fyrir sjálfvirkni, breyttum neysluvenjum og aukinni áherslu á sjálfbæra framleiðslu. Alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel og framúrskarandi tæknileg geta veita okkur frábært forskot. Verulegar fjárfestingar í rekstri og innviðum hafa komið okkur í einstaka stöðu til þess að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem framundan eru.

Mikilvægar framfarir urðu í sjálfbærnivegferð Marel árið 2020. Við skuldbundum okkur meðal annars til að setja markmið í loftslagsmálum byggð á vísindalegum grunni (Science Based Targets), við bættum UFS (ESG) markmiðum inn í skammtímahvatakerfi og jöfnuðum kynjahlutfall í framkvæmdastjórn félagsins.

Það hafa verið bæði forréttindi og sönn ánægja að þjóna hluthöfum Marel, taka þátt í afrekum félagsins og verða vitni að þeim fjölmörgu áföngum sem náðst hafa á síðustu árum.“

Úr skýrslu forstjóra Marel, Árna Odds Þórðarsonar:

„Horft um öxl, er mér efst í huga þakklæti til starfsmanna Marel, viðskiptavina okkar og samstarfsaðila sem allir hafa unnið að sama markmiði, að halda einni mikilvægustu virðiskeðju heims gangandi. Sérstakar þakkir vil ég svo færa Ásthildi, fráfarandi stjórnarformanni, fyrir skýra framtíðarsýn á starfsemi og stefnu Marel og frábært samstarf síðastliðin 11 ár.

Á sama tíma og við höfum sett öryggi og velferð starfsmanna okkar og viðskiptavina í fyrsta sæti, höfum við mætt hverri áskorun með bjartsýni og þannig tryggt stöðugt framboð af öruggum og hagkvæmum matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran hátt fyrir neytendur um heim allan. Stafrænar lausnir og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum hafa á tímum heimsfaraldurs og ferðatakmarkana gert okkur kleift að þjónusta viðskiptavini í yfir 140 löndum.

Stafræn þróun er á ógnarhraða og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla. Heimsfaraldurinn ýtir enn frekar undir fjárfestingar í sjálfvirkum, sveigjanlegum og sjálfbærum lausnum. Samkeppnisstaða Marel er góð og pípan af nýjum verkefnum lofar góðu, sérstaklega í sjálfvirkum lausnum sem styðja við sveigjanlega framleiðslugetu fyrir neytendamarkað og tilbúin matvæli. Gera verður ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga, sérstaklega nú á tímum umbreytinga og óvissu.“

Eftirfarandi aðilar voru kosnir í stjórn Marel hf.:

Ann Elisabeth Savage
Arnar Þ. Másson
Ástvaldur Jóhannsson
Lillie Li Valeur
Dr. Ólafur Guðmundsson
Dr. Svafa Grönfeldt
Ton van der Laan

Ásthildur Margrét Otharsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en hún hefur setið í stjórn Marel í 11 ár, þar af 7,5 ár sem stjórnarformaður. Stjórn Marel færir henni bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag við störf sín í þágu félagsins.

Dr. Svafa Grönfeldt kemur ný inn í stjórn Marel. Svafa, sem er fædd árið 1965, gegnir stöðu prófessors við MIT háskólann í Boston og er einn af stofnendum MITdesignX sem er nýj­asti viðskipta­hraðall MIT. Hún er einnig meðstofnandi “The MET Fund” sem er sprotafjármögnunarsjóður í Cambridge, Massachusetts. Svafa starfaði áður sem fram­kvæmda­stjóri hjá Al­vo­gen og þar áður sem rektor Há­skól­ans í Reykja­vík og aðstoðarfor­stjóri Acta­vis. Í yfir 20 ár hefur Svafa einbeitt sér að stjórnun og stefnumótun vaxtarfyrirtækja, þar á meðal þróun þjónustuferla, innleiðingu stefnu og árangursmælikvarða sem og samþættingu fyrirtækja eftir samruna og yfirtökur. Svafa er varaformaður stjórna Icelandair og Össurar og situr í endurskoðunarnefndum beggja fyrirtækja.  Hún er með doktors­próf frá London School of Economics í vinnu­markaðsfræðum.

Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Arnar Þór Másson formaður og Ólafur Guðmundsson varaformaður.

Aðrar tillögur til fundarins

  • Aðalfundurinn samþykkti arðgreiðslu að fjárhæð 5,45 evru sent á hlut fyrir rekstrarárið 2020. Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 41,0 milljónum evra, sem samsvarar um 40% af hagnaði ársins og er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu.
  • Tillaga um starfskjarastefnu félagsins var samþykkt. Hluthafar samþykktu einnig tillögu um stjórnarlaun vegna ársins 2021 og þóknun til endurskoðenda fyrir liðið starfsár.
  • Tillaga um breytingu á grein 15.2 í samþykktum félagsins var samþykkt. Greinin heimilar stjórn að hækka hlutafé um 75 milljónir króna að nafnvirði, sem jafngildir 9,7% af útgefnu hlutafé félagsins, m.a. til þess að nota í tengslum við fyrirtækjakaup eða stefnumarkandi fjárfestingar, og bættist við heimild til að selja nýja hluti í útboði í umsjón fjármálafyrirtækis. Gildistími heimildarinnar var styttur úr 5 árum í 18 mánuði.
  • Endurskoðunarskrifstofan KPMG ehf. var kosin endurskoðandi félagsins.

Myndbandsupptökur af ávörpum stjórnarformanns og forstjóra verða gerðar aðgengilegar á vefsíðu fundarins.

Ársskýrsla félagsins fyrir árið 2020 er aðgengileg á eftirfarandi slóð:

https://ar2020.marel.com/

 

Deila: