Leyfi fengið fyrir kalkþörunganámi í Ísafjarðardjúpi

11
Deila:

Íslenska kalkþörungafélagið hf. hefur fengið í hendur leyfi til hagnýtingar á kalkþörungaseti af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi á nánar tilgreindum svæðum. Leyfið er til 30 ára og heimilar að taka allt að 3,6 milljónir rúmmetra á tímabilinu.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að næsta skref væri samningagerð við Súðavíkurhrepp um greiðslu fyrir landfyllingu og bryggjugerð sem hreppurinn mun láta framkvæma og leggja út fyrir. Halldór sagði hægt væri að styðjast við fyrirmynd að slíkum samningi sem gerður hefur verið við Vesturbyggð.

Þá standa yfir viðræður um raforkukaup. Verksmiðjan mun þurfa 10 MW eða 8.000 Gwh á ári og gæti fallið undir það að vera stórnotandi. Við þær aðstæður gæti Ískalk samið beint við Landsvirkjun um kaup á raforku. Bæði Landsnet og orkubú Vestfjarða koma að viðræðunum.

Að sögn Halldórs er varaáætlunin að nota gas til orkuframleiðslunnar ef ekki tekst að koma rafmagninu til verksmiðjunnar í Súðavík, en á þessu stigi er ekki vitað hvernig eða hvort hægt verði að afhenda rafmagnið.
Frétt af bb.is

 

Deila: