Lítil led-pera sló út 6 spilum

21
Deila:

Maður vikunnar nú er yfirvélstjóri á Harðbak EA. Hann er Eyfirðingur og býr á Akureyri. Vélsleðar, fjallgöngur, skíði og almenn útivist eru áhugamál hans.

Nafn:

Friðrik Karlsson.

Hvaðan ertu?

Ég er uppalinn í Eyjafjarðarsveit en bý á Akureyri í dag.

Fjölskylduhagir?

Bý með kærustunni minni, er barnlaus og er yngsti bróðir af þremur.

Hvar starfar þú núna?

 Ég starfa sem yfirvélstjóri á Harðbak EA 3 hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég fer fyrst að sniglast í kringum sjávarútveginn þegar ég var á fyrsta ári í vélstjórnarnáminu en þá fór ég í landanir og útskipanir með skóla og fæ áhuga á greininni. Ég fer síðan að vinna nær sjávarútvegi sumarið 2015 þegar ég byrja á vélvirkjasamning hjá N. Hansen sem þjónusta nær eingöngu fiskiskip og vinnslur. Síðan þá hefur þetta bara undið upp á sig.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Sem vélstjóri til sjós myndi ég segja að væri fjölbreytileikinn, það getur allt komið upp.

En það erfiðasta?

Brælur koma fyrst upp í hugann en þær eru ekki beint til þess fallnar að auðvelda neinum veruna um borð í skipi.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er ótal margt sem drífur á dagana, fæst af því fær þá skilgreiningu að vera skrítið þar sem það er löngu orðið ljóst að allt getur komið upp og gerir það fyrir rest. Við lentum í því til dæmis um daginn að það gaf sig lítil LED pera í hurð á rafmagnstöflu sem sló einum sex spilum út með sér. 

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég myndi segja það vera hópinn af Vestmannaeyingum sem ég reri með snemma árs 2020 þegar Samherji tók Smáey VE á leigu en ég var þar sem yfirvélstjóri í rúman mánuð. Þessum peyjum er ekki fisjað saman.

Hver eru áhugamál þín?

Vélsleðar, fjallgöngur, skíði og almenn útivist. Annars gera verkefni sem koma óvænt upp í hendurnar á manni alveg helling fyrir mann eins og mig. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Grillað lambaprime og bearnaise. Humar hefur svo aldrei skemmt neitt!

Hvert færir þú í draumfríið?

Eins og staðan er í dag þá langar mig mest erlendis í skíðaferð; „hyttur“, gott vín og „sauna“. Það bara getur ekki klikkað.

 

Deila: