„Útlitið er náttúrulega bara slæmt“

108
Deila:

Grásleppusjómenn eru ekki bjartsýnir fyrir vertíðina sem hefst á morgun. Útlit er fyrir lágt verð á grásleppuhrognum og markaður fyrir grásleppuna sjálfa í Kína hefur hrunið. Þetta kemur fram á ruv.is

Um þrjátíu útgerðir hafa nú sótt um grásleppuleyfi en veiðileyfið gildir í 25 daga samfellt. Þetta segir þó ekki allt um hve margir byrja á morgun, fyrsta leyfilega grásleppuveiðidag ársins. Það er fátt sem hvetur menn til að hefja veiðar.

Útlit fyrir talsverða verðlækkun á hrognum frá í fyrra

„Útlitið er náttúrulega bara mjög slæmt, sérstaklega upp á verðin,“ segir Jón Þorsteinsson eigandi Fengs ÞH á Grenivík. Það fengust rúmar 200 krónur fyrir kílóið af grásleppuhrognum á síðustu vertíð, sem þá var lækkun frá 2019. Kaupendur hafa ekki enn gefið upp verð þetta árið, en það er útlit fyrir talsverða verðlækkun frá í fyrra.

Vonar að það viðri til að leggja netin

„Ég held að maður reyni að fara, spáin er þannig að það er hugsanlegt að maður geti lagt á morgun. Það verður þá bara að hafa það, því það er ekkert bjart yfir þessu á neinn hátt, þannig að það verður þá sama þó maður missi einn eða tvo daga til að byrja með,“ segir Jón.

Öll grásleppan af síðustu vertíð liggur óseld í Kína

Í ár verður ekki skylda að koma með grásleppuna í land eins og undanfarin ár heldur mega menn nú skera hana úti á sjó til að hirða hrognin. Ástæðan er sú að öll grásleppan frá í fyrra liggur óseld í Kína og því er þetta verðlaus afurð. Jón segir þó að þeirra kaupandi vilji fá grásleppuna. „Ég held þeir hafi markað núna í eitthvert einhverskonar loðdýrafóður eða eitthvað úti í Þýskalandi. Þannig að við erum alveg tilbúnir að landa þessu alveg óskornu og þeir geti þá losnað við það. Við fáum ekki neitt.“

 

Deila: