Fínasti túr

79
Deila:

Löndun hófst úr frystitogaranum Blængi NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Afli skipsins er rúm 750 tonn upp úr sjó að verðmæti 182 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr.

„Aflinn er góð blanda, mest ufsi og síðan töluvert af gulllaxi og djúpkarfa en minna af öðrum tegundum. Við vorum 25 daga í túrnum og veður var gott allan tímann að undanskildum þremur fyrstu dögunum. Þessa þrjá fyrstu daga vorum við hér fyrir austan í grálúðu en síðan vorum við á suðvesturmiðum frá Selvogsbanka vestur í Skerjadýpi. Það var settur nýr veltitankur í skipið í janúar og hann hefur gjörbreytt því til hins betra. Skipið veltur miklu minna en áður og fer betur með mannskapinn – strákarnir vita vart af brælum,“ segir Bjarni Ólafur í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Á myndinni kemur Blængur NK til hafnar. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

 

Deila: