Nýir starfsmenn Hafró í Neskaupstað

9
Deila:

Hafrannsóknastofnun opnaði nýja starfsstöð í Neskaupstað nú í mánuðinum sem er um leið fyrsta starfsstöð stofnunarinnar á Austurlandi. Gengið hefur verið frá ráðningu tveggja starfsmanna á svæðinu, Helenu Gallardo Roldán og Hrefnu Zoëga, sem munu sinna sýnatöku úr afla upp- og botnsjávarfisks sem og hinum ýmsum rannsóknar- og vöktunarverkefnum á Austurlandi.

Helena Gallardo Roldán, Hrefna Zoëga. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Helena Gallardo Roldán er nýr starfsstöðvarstjóri og sérfræðingur á starfstöð í Neskaupstað. Helena er með grunnháskólamenntun í sjávarlíffræði og mastersgráðu á sviði fiskeldi og fiskveiða með áherslu á sjávarauðlindir og sjálfbærni. Hún hefur meðal annars starfað við hafrannsóknir hjá Haffræðistofnun Spánar. Þá gegnt störfum tengdri ferðaþjónustu á Íslandi í tæp tvö ár, m.a. við hvalaskoðum.

Hrefna Zoëga hefur verið ráðin í starf rannsóknamanns við stöðina í Neskaupstað en hún hefur menntun frá Fiskvinnsluskólanum á Dalvík. Hrefna hefur víðtæka starfsreynslu úr sjávariðnaði og hefur meðal annars unnið í fiskvinnslu, sem verkstjóri og gæðastjóri. Að auki hefur hún tekið þátt í að setja fiskvinnslufyrirtæki af stað frá grunni og verið háseti á skipi. Síðustu ár hefur Hrefna unnið í ferðageiranum og verið hótelstjóri. Hrefna er mikil útivistarmanneskja, hefur mikla ánægju að ganga á fjöll og stunda skíði.

Starfsstöðin í Neskaupsstað verður í Múlanum – samvinnuhúsi, nýjum skrifstofuklasa og miðstöð nýsköpunar.

„Við bjóðum þær Helenu og Hrefnu velkomnar til starfa hjá Hafrannsóknastofnun og hlökkum til að sjá starfstöð í Neskaupsstað byggjast upp og blómstra í þeirra höndum,“ segir á heimasíðu Hafró.

 

Deila: