Ummæli Helga Seljan brot á siðareglum en önnur ekki

11
Deila:

Siðanefnd RÚV vísar ýmist frá eða metur svo að siðareglur hafi ekki verið brotnar vegna um­mæla tíu starfs­manna RÚV á samfélagsmiðlum um Sam­herja. Nokkur ummæli Helga Seljan, eins stjórnanda fréttaskýringarþáttarins Kveiks, voru talin fela í sér alvarlegt brot. Engin efnisleg afstaða var tekin til fréttaflutningsins sjálfs. Samherji kærði 11 starfsmenn RÚV til siðanefndarinnar. Greint er frá þessu á ruv.is og er umfjöllunin svohljóðamdi:

Kæran snýr að 4. málsgrein 3. greinar siðareglna Ríkisútvarpsins þar sem segir að starfsfólk það sem fjallar um fréttir, fréttatengt efni og sinnir dagskrárgerð skuli ekki taka afstöðu í umræðu um pólítísk mál og umdeild, þar á meðal á samfélagsmiðlum.

Færslurnar sem Samherji kærði voru skrifaðar á tímabilinu frá því nóvember 2019 til ágúst 2020, að stórum hluta viðbrögð þeirra við myndbandi sem Samherji birti í ágúst 2020 og beindi spjótum sínum sérstaklega að Helga Seljan einum stjórnenda fréttaskýringaþáttarins Kveiks. Tíu frétta- og dagskrárgerðarmenn RÚV, auk Helga, voru kærðir til siðanefndarinnar.

Í niðurstöðu siðanefndarinnar, sem skipuð er Gunnari Þór Péturssyni, Páli Rafnari Þorsteinssyni og Sigrúnu Stefánsdóttur, segir að fara þurfi með gát þegar takmarkanir eru settar á tjáningarfrelsi blaða- og fréttamanna í lýðræðisþjóðfélagi.

Tjáningarfrelsið eins og það er varið af stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu verði ekki takmarkað af siðarreglum þannig að ekki sé svigrúm til að stíga fram og verja starfsheiður sinn eða fréttastofunnar.

Siðanefndin vísar málum frá er varða ummæli og deilingar Aðalsteins Kjartanssonar, Freys Gígju Gunnarssonar, Helga Seljan, Láru Ómarsdóttur, Rakelar Þorbergsdóttur, Sigmars Guðmundssonar, Stígs Helgasonar, Sunnu Valgerðardóttur, Tryggva Aðalbjörnssonar og Þóru Arnórsdóttur.

Ummæli og deilingar Freys, Láru, Sunnu og Aðalsteins fela ekki í sér brot á siðareglum.

Í úrskurðinum eru tiltekin nokkur ummæli Helga, sem eru talin fela í sér alvarlegt brot, þeirra á meðal eftirfarandi:

„Vonandi er þessi árétting of einhliða fyrir hinn ballanseraða forstjóra Samherja.“

„Sæll Björgólfur Jóhannsson. Nú hef ég fylgst með þér fyrstu daga þína í starfi og vandræðum þínum við að höndla einfaldar staðreyndir um eignarhald fyrirtækisins sem þú stýrir; samanber þetta með Heinaste um daginn.“

„Rosalega hlýtur þeim að líða vel með sig núna „andlitunum“ sem tóku þátt í að rétta við ímynd þessa kompanís eftir að upp um það komst.“

Í úrskurðinum segir að telja verði að með þessum ummælum sínum, sérstaklega þegar þau eru saman tekin, en þó ekki aðeins, hafi „Helgi Seljan gerst hlutdrægur og gengið lengra en það svigrúm sem hann hafi annars til þess að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegum þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni.“

„Því er það mat siðanefndarinnar að í ofangreindum ummælum felist skýr og persónuleg afstaða í málefni kæranda, sem 4. mgr. 3. gr. siðareglnanna er ætlað að taka til, og því um að ræða brot á greininni.

Hvað varðar alvarleika brots Helga Seljan, verður að taka tillit til þess að ákvæðum siðareglnanna hefur ekki verið beitt fyrr, sem  og að ekki liggja fyrir skýrar leiðbeiningar frá RÚV um hvernig fréttmenn eigi að haga tjáningu sinni á samfélagsmiðlum.

Á móti kemur að hér er um að ræða ítrekuð tilvik yfir langan tíma. Í því ljósi telur siðanefndin að brot Helga sé alvarlegt, á mælikvarða 7. gr. starfsreglna siðanefndarinnar (ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt).“

Yfirlýsing frá stjórnendum RÚV vegna úrskurðarins birtist klukkan 14:50:

Niðurstaða siðanefndar í máli Samherja á hendur 11 starfsmönnum RÚV

Úrskurður siðanefndar Ríkisútvarpsins vegna kæru Samherja hf. gegn ellefu starfsmönnum RÚV var birtur í dag. Kæran varðaði færslur umræddra starfsmanna á samfélagsmiðlum en þær voru kærðar til siðanefndarinnar í ágúst og október á síðasta ári.

Niðurstaða nefndarinnar er skýr og ótvíræð varðandi 10 af 11 starfsmönnum RÚV, en þar er kærum ýmist vísað frá nefndinni eða niðurstaðan er að ummælin teljist ekki brot á siðareglum RÚV. Að mati siðanefndarinnar hefur einn starfsmaður, Helgi Seljan fréttamaður, brotið siðareglur RÚV með nánar tilgreindum ummælum á samfélagsmiðlum. Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram um það í niðurstöðu nefndarinnar að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV.

Rétt er að taka fram að kærur Samherja til siðanefndar RÚV snúast ekki um hvað er satt og rétt í fréttaflutningi RÚV um Samherja heldur hvort skrif fréttamanna á samfélagsmiðla eru smekkleg eða ekki. Siðanefndin fjallaði ekki um fréttir eða fréttaskýringar RÚV, efni þeirra eða vinnslu. Niðurstaða nefndarinnar felur ekki í sér neina afstöðu til fréttanna. Fréttastofa RÚV stendur við allan fréttaflutning af málefnum Samherja og mun halda áfram að fjalla um fyrirtækið eins og tilefni er til.

Úrskurður nefndarinnar er ítarlega rökstuddur. Yfir hann verður farið nánar af hálfu stjórnenda RÚV og fréttastofu eins og eðlilegt er.

 

Deila: