Fá styrk til endurbóta á Sindra
Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum hefur fengið úthlutun úr Formninjasjóði að upphæð 2.000.000 kr. til að framkvæma endurbætur á Sindra sem er rúmlega 7 metra langur súðbyrðingur smíðaður árið 1936 í Hvallátrum á Breiðafirði.
„Svona styrkur er ómetanlegur stuðningur við okkar starf við að vernda Breiðfirska bátaarfinn og kunnum Fornminjasjóði og Minjastofnun bestu þakkir fyrir.
Ráðgert er að vinna að viðgerðinni í Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum sumarið 2021 og mun Hafliði Aðalsteinsson skipasmíðameistari, formaður FÁBBR, stýra framkvæmd hennar.
Hér er um að ræða upplagt tækifæri til að heimsækja Reykhóla og sjá handverk breiðfirskra skipasmiða á lifandi safni.
Við munum auglýsa betur hvenær unnið verður að viðgerðunum þegar nær dregur,“ segir í frétt frá félaginu.
Sindri var smíðaður árið 1936 af Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum fyrir Jón Þórðarson og Snæbjörn Jónsson á Stað á Reykjanesi. Á þessum tíma var tvíbýli á Stað en síðar(1949) byggði Jón nýbýlið Árbæ .
Sindri er smíðaður úr eik og furu og skráður 2,5 brl. Var upphaflega með 5 ha Skandia vél, árið 1946 var sett í bátinn 8 ha. Skandia vél, 1983 var sett í bátinn 8 ha Sabb vél og 1995 10 ha Sabb vél sem er í bátnum í dag.
Sindri var notaður af Staðar og Árbæjar bændum í áratugi við hlunnindanytjar og flutninga á vörum og fólki.
Sindri hefur verið geymdur í uppsátri á Vesturnesi við höfnina á Stað.
Árið 1962 kaupir Guðmundur Theódórsson á Laugalandi við Þorskafjörð bátinn og notar hann við hlunnindanytjar o.fl. Árið 1990 gerði Guðmundur bátinn upp og hefur síðan haldið honum mjög vel við.
Á Bátadögum 2015 sigldi Guðmundur ásamt gestum á Sindra í hópi báta í blíðu veðri. Að því loknu afhenti Guðmundur Bátasafninu Sindra til eignar og varðveislu.
Sindri var hafður til sýnis á Báta- og hlunnindasýningunni fram á haust en nú hefur verið gengið frá honum til vetrardvalar í naustinu þar sem hann hefur verið geymdur undanfarin 80 ár.
Hér að neðan eru krækjur á ýmsan fróðleik.
Fornminjasjóður 2021: https://www.minjastofnun.is/sjodir/fornminjasjodur/styrkuthlutanir/2021/
Fróðleikur um Sindra. http://batasmidi.is/blog/2015/09/29/737118/
Myndir af Sindra: http://batasmidi.is/photoalbums/274830/
Bátasafn Breiðafjarðar: http://www.reykholar.is/stjornsysla/stofnanir/Batasafn_Breidafjardar/
Heiðursiðnaðarmenn 2020: http://batasmidi.is/blog/yearmonth/2020/04/