Matís í nýtt húsnæði í Neskaupstað

123
Deila:

Starfstöð Matís á Austurlandi hefur flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði að Bakkavegi 5 í Neskaupstað. Húsnæðið ber nafnið Múlinn-Samvinnuhús.

Byggingin sem að hluta hýsti áður verslunarrými hefur fengið yfirhalningu og viðbyggingu sem rúmar fjölbreytta atvinnustarfsemi. Húsið skiptist í skrifstofuklasa, sérhæfðar rannsóknarstofur og opin rými en auk Matís nýta Origo, Deloitte, Stapi lífeyrissjóður, Advania, Hafró, Mast, Austurbrú, Nox health og Náttúrustofa Austurlands sér vinnuaðstöðu í Múlanum.

Starfstöðin var lokuð um tveggja vikna tímabil meðan á flutningum stóð frá 15.febrúar til 26.febrúar. Á þeim tíma var lokahönd lögð á uppsetningu innréttinga, vaska og rafmagns í rýminu sem Matís leigir. Auk þess nýtti starfsfólk tímann til þess að koma tækjum og tólum fyrir á sínum stað og framkvæmda mælingar og prófanir á búnaði til að ganga úr skugga um að allt virkaði eins og það ætti að gera og í samræmi við kröfur faggildingaraðila rannsóknarstofunnar.

Opnað var fyrir rannsóknir hjá Matís á Austurlandi á ný mánudaginn 1.mars, í tæka tíð fyrir loðnuhrognavertíðina sem er alla jafna annatími á starfsstöðinni.

 

Deila: